133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[16:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Já, göngum í verkin, sagði síðasti ræðumaður hér, og bíðum ekki fram til ársins 2588 í þetta 581 ár sem hér hefur oft verið nefnt, og að vonum. Að teknu tilliti til leiðréttinga, segir hér, þar sem horft er fram hjá veikri stöðu kvenna á vinnumarkaði hefur nú verið staðfest að launamunurinn er 15,7% en var 16% árið 1994. Í 12 ár hefur ekkert haggast. Þannig verður þetta áfram ef ekkert verður að gert.

Við getum ekki sætt okkur við þennan smánarblett á íslensku samfélagi og íslenskum vinnumarkaði. Allra síst getum við það þar sem hann snýr að ríkisstarfsmönnum, og ég er ein þeirra. Með þeim leiðréttingum sem hér eru kynntar er verið að horfa fram hjá, eins og ég sagði, veikri stöðu kvenna á vinnumarkaði. Það er verið að þurrka út mismuninn sem er á stöðu karla og kvenna í þessu samfélagi. Konur verða því miður ekki bara fyrir þessu misrétti á vinnumarkaði heldur í allri samfélagsgerðinni.

Þessi munur er nefnilega miklu meiri en 15,7% og það vitum við öll. Konur hafa ekki mannaforráð. Þær fá ekki yfirvinnu. Þær fá ekki stjórnunarstöður. Þær hafa ekki bílastyrki. Þær hafa ekki sporslur. Þær hafa ekki símapeninga. Þær víkja út af vinnumarkaði vegna veikinda annarra í fjölskyldunni. Það hefur aftur áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði. Það hefur áhrif á lífeyrisréttinn, veikindaréttinn, bætur vegna slysa o.s.frv. Hvað eigum við að gera? Eigum við að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og ekkert sé? Eða eigum við að grípa til aðgerða sem þekktar eru, aflétta launaleyndinni fyrst og fremst og að ríkið gangi eftir fordæmi Reykjavíkurlistans (Forseti hringir.) með markvissum aðgerðum? (Gripið fram í.)