133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

teikning af legu raflínu frá Skagafirði til Húsavíkur.

235. mál
[18:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góð og hreinskilin svör. Það var gott að fá fram svör hæstv. ráðherra því að þau sýna að í vinnunni hefur vilji heimamanna, sem er held ég öllum sem að koma algjörlega skýr, verið virtur að vettugi og þessi möguleiki settur fram, hvort sem það er teikning eða lauslegur uppdráttur. Það skiptir ekki máli, það hefur sem sagt verið lagt mat á þennan möguleika.

Það er mikilvægt að heimamenn í Skagafirði geri sér grein fyrir þessu, geri sér grein fyrir því að ef virkjunarkostir verða settir inn á samþykkt skipulag þá hafa þeir meira og minna misst allan yfirráðarétt yfir því hvernig orkan yrði nýtt. Þar með hefðu heimamenn einungis framkvæmdaleyfið í höndunum og það er allt of veikt til að hægt sé að nýta það gagnvart fyrirtækjum sem hafa farið í rannsóknir og hafa virkjunarleyfi í höndunum.

Þetta eru mikilvægar upplýsingar sem vonandi nýtast okkur sem viljum náttúruna í Skagafirði eins og hún er af hendi skaparans. Þess utan vona ég að það verði leitt í ljós hvernig virkjun Jökulsánna kæmi til með að hafa áhrif á lífríkið í neðanverðum Skagafirði, en það hefur því miður ekki verið nóg í umræðunni til þessa.