133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

eldfjallagarður á Reykjanesi.

198. mál
[18:27]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Það er augljóst að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur lesið vitlaust í orð mín og misskilið þau. Fyrst vil ég taka fram, eins og ég sagði í ræðu minni, að Landvernd hefur ekki kynnt þessar hugmyndir ráðuneytinu og það er rétt að fulltrúi ráðuneytisins sat þessa ráðstefnu á sínum tíma. Þess vegna var ráðherra kunnugt um þessar hugmyndir Landverndar sem þar voru kynntar. En það stendur hins vegar ekki á ráðherranum, ef eftir því er leitað, að hitta fulltrúa Landverndar til að kynnast þessum hugmyndum nánar.

Síðan vil ég taka fram að þegar farið verður að vinna að gerð næstu náttúruverndaráætlunar tel ég mig hafa tekið það skýrt fram að þá sé rétt að taka þetta til skoðunar af hálfu Umhverfisstofnunar þannig að þetta geti hugsanlega verið inni í þeirri vinnu.

En ég gerði í ræðu minni nokkuð góða grein fyrir því að núna er verið að vinna að náttúruverndaráætlun sem gildir til ársins 2008. Þetta svæði er ekki þar inni í sem heild. Ég tel rétt að Umhverfisstofnun í samráði við ráðuneytið ljúki þeirri vinnu og síðan verði hafist handa við næstu náttúruverndaráætlun.

Ég lokaði engan veginn fyrir það, herra forseti, að þessi hugmynd verði skoðuð við gerð þeirrar áætlunar og það hefur ekkert með rannsóknaleyfi að gera eða aðrar framkvæmdir sem standa fyrir dyrum eða búið er að gefa leyfi til á Reykjanesskaganum.