133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er fullt tilefni til að taka þetta mál upp hér því að framferði Ísraela nú gengur gjörsamlega fram af manni. Það er ráðist á óbreytta borgara upp úr þurru án þess að svo mikið sem málamyndaástæður séu til og að því er virðist aðallega til að reyna að skapa á nýjan leik upplausn meðal Palestínumanna og að koma í veg fyrir að festa komist í stjórnmálin þar í landi með myndun þjóðstjórnar. Og þá virðist ekki vefjast fyrir Ísraelsmönnum að fremja fjöldamorð á óbreyttum borgurum. Það er ekki hægt að kalla það annað en fjöldamorð að hefja skotárásir á íbúa húss um miðja nótt þar sem íbúarnir eru í fastasvefni og þegar í ljós kemur að fórnarlömbin eru aðallega konur og börn, óbreyttir borgarar, óvopnaðir þá er það brot á öllum siðaðra manna lögum, það eru fjöldaaftökur á fólki án nokkurrar réttlætingar.

Það má líka nefna það framferði Ísraela sem komið hefur í ljós eftir að smátt og smátt verður ljóst hvað gerðist í innrásinni í Líbanon. Þar hafa verið notaðar ekki aðeins klasasprengjur heldur fosfórsprengjur og fleiri efna- og geislavopn. Allar alþjóðareglur um vernd óbreyttra borgara, um vopnanotkun í átökum og hvað það nú er eru þannig þverbrotnar.

Ég tek undir þá kröfu að ríkisstjórn Íslands mótmæli þessu framferði Ísraela harðlega. Það er í sjálfu sér fátt annað sem við getum gert nema taka það til skoðunar sem ég held að hljóti að verða að fara að koma á dagskrá hér, að slíta stjórnmálasambandi við þetta ríki. Er hægt að halda uppi stjórnmálasambandi við ríki sem þverbrýtur og hunsar ályktanir Sameinuðu þjóðanna, þverbrýtur og hunsar alþjóðalög um vernd óbreyttra borgara og þar fram eftir götunum? Það ber þá vel í veiði ef sendiherrann er að koma hér á næstunni að koma þeim skilaboðum til hans að eitthvað verði að gera.