133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[10:55]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur borist skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2005 og er hún hér til umræðu. Skýrslan er í senn starfsskýrsla hans til þingsins og samantekt á upplýsingum um þau mál sem hann hefur fjallað um á árinu 2005 og telur rétt að kynna Alþingi.

Það er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði þingsins eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um embættið og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þetta hlutverk rækir umboðsmaður með því að taka til athugunar kvartanir frá borgurunum, auk þess sem hann tekur mál til athugunar að eigin frumkvæði telji hann ástæðu til þess. Umboðsmaður hefur þannig eftirlit með því hvernig stjórnsýslan fylgir þeim leikreglum samfélagsins sem settar hafa verið á Alþingi. Það er vitanlega mikilvægt fyrir alþingismenn að fá með slíkri skýrslu innsýn í það eftirlitsstarf sem umboðsmaður innir af hendi og sjá þannig hvernig stjórnsýslan hefur fylgt þeim lagareglum sem þingið hefur sett um störf hennar. Slíkar upplýsingar eru bæði til þess fallnar að styrkja það sjálfstæða eftirlitshlutverk sem Alþingi hefur með störfum framkvæmdarvaldsins og vera til stuðnings við undirbúning lagabreytinga og nýmæla í lögum sem Alþingi fjallar um.

Eins og ráðið verður af þeim tölulegu upplýsingum sem fram koma um starf umboðsmanns á árinu 2005 voru þau formlegu erindi sem hann tók til meðferðar á því ári rétt um 300. Er þetta áþekkur fjöldi og síðustu ár en ég vek þó athygli á því að afgreiddum málum hjá embætti hans fjölgaði um nær 50 frá árinu 2004. En rétt eins og umboðsmaður leggur áherslu á í skýrslu sinni segja þessar tölur ekki allt um þann fjölda mála og erinda sem koma við sögu í starfi hans því að til skrifstofu umboðsmanns leitar jafnan fjöldi fólks með margvíslegar fyrirspurnir sem reynt er að greiða úr eftir föngum þótt ekki komi til formlegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Auk þess að fjalla um kvartanir frá borgurunum yfir stjórnsýslunni hefur umboðsmaður heimild til að taka upp mál að eigin frumkvæði. Fyrir þeim þætti í starfsemi umboðsmanns á árinu 2005 er gerð grein á bls. 15–21 í skýrslunni. Ég vek þar sérstaka athygli á því að þótt umboðsmaður hafi aðeins talið tilefni til að taka tvö ný mál með formlegum hætti til athugunar á árinu á þessum grundvelli er ljóst af þeim málum sem hann rekur í þessari umfjöllun að þau eru mun fleiri, tilvikin þar sem umboðsmaður hefur farið þá leið að óska eftir upplýsingum frá stjórnvöldum til að leggja mat á hvort tilefni væri til þess að hann tæki tiltekin mál til athugunar að eigin frumkvæði. Sem dæmi um slík mál nefnir umboðsmaður níu tilvik og fram kemur að það var allur gangur á því hvort svör stjórnvalda við fyrirspurnum umboðsmanns urðu honum tilefni til að kanna málið frekar eða hann ákvað að bíða og sjá hver yrði framvinda viðkomandi máls hjá stjórnvöldum. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er liður í því aðhaldi sem honum er ætlað að veita stjórnsýslunni og að fylgjast með því að hún starfi í samræmi við lög.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þeirri umfjöllun sem er að finna í inngangi að skýrslu umboðsmanns á bls. 10–15 undir fyrirsögninni „Helstu viðfangsefni á árinu“. Þarna dregur umboðsmaður eins og í fyrri skýrslum sínum saman þau atriði sem hann telur sérstaka ástæðu til að beina til Alþingis í ljósi þeirra viðfangsefna sem hann hefur fengist við á því ári sem skýrslan fjallar um. Að þessu sinni beinir umboðsmaður sjónum sínum að framkvæmd stjórnsýslulaganna frá 1993 og því markmiði þeirra laga að auka réttaröryggi borgaranna. Ég skil orð umboðsmanns svo að það þurfi að koma betra skikki og skipulagi á framkvæmd stjórnsýslulaga hjá stjórnvöldum. Þau þurfa með öðrum orðum að fella verklag sitt og starfshætti betur að reglum laganna þannig að borgararnir fái betur notið þeirra réttinda og réttaröryggis sem Alþingi hefur mælt fyrir um í þessum lögum.

Umboðsmaður nefnir m.a. í þessu sambandi reglur laganna um málshraða, tilkynningar um fyrirsjáanlegar tafir, leiðbeiningar við birtingu ákvörðunar og svör við beiðnum um rökstuðning innan 14 daga. Umboðsmaður leggur áherslu á að þarna er um að ræða einfaldar og skýrar lagareglur um skyldu stjórnvalda og að það eigi að vera auðvelt að fella þær inn í verkferla hjá stjórnvöldum og þar með að auka gæði og bæta stjórnsýsluna almennt.

Það er vissulega ekki gott ef það er reyndin, eins og umboðsmaður bendir á, að það sé gjarnan tilviljunarkennt hvort og þá hvernig reglum stjórnsýslulaganna er fylgt í starfi stjórnvalda. Þær niðurstöður sem koma fram í athugunum sem umboðsmaður hefur að eigin frumkvæði unnið að um starfshætti stjórnvalda að þessu leyti og birtar eru þessa dagana benda því miður til þess að sú sé einmitt raunin.

Við alþingismenn megum heldur ekki gleyma því að þarna eiga í hlut almennar réttaröryggisreglur sem Alþingi hefur ákveðið að stjórnsýslan eigi að fylgja í athöfnum sínum og ákvörðunum gagnvart borgurunum. Hér er því fullt tilefni til að fylgja þessum ábendingum umboðsmanns eftir.

Umboðsmaður vekur líka máls á nauðsyn þess að betur verði hugað að því við lagasetningu hvaða áhrif hún hefur á störf og starfshætti stjórnsýslunnar og þar með hvernig stjórnsýslan þarf að takast á við ný og breytt verkefni. Ég vísa þar til þess sem fram kemur í inngangi að skýrslu umboðsmanns á bls. 21–24 þar sem umboðsmaður varpar fram hugmynd um það sem hann nefnir „Stjórnsýslumat á lagafrumvörpum“ og er þá að vísa til samanburðar við það kostnaðarmat sem fylgja á lagafrumvörpum. Þetta er ábending umboðsmanns um hugsanlega leið til að bæta stjórnsýslu og þar með framkvæmd þeirra verkefna sem Alþingi mælir fyrir um í lögum.

Það er ljóst af þessari skýrslu umboðsmanns til Alþingis að rétt eins og í þeim fyrri gætir umboðsmaður þess að sinna þeim þætti starfsins að gera tillögur almenns eðlis til endurbóta á stjórnsýslu, eins og það var orðað í athugasemdum við frumvarp til fyrstu laga um umboðsmann Alþingis. En meginþunginn í starfi umboðsmanns er að sinna þeim kvörtunum sem koma frá almenningi um störf stjórnsýslunnar. Eins og þessi skýrsla ber með sér eru þau viðfangsefni fjölbreytt og hið sama á við um þau lögfræðilegu úrlausnarefni sem þar er tekist á við. Í því efni er forvitnilegt fyrir okkur alþingismenn að sjá hvernig ummæli í umræðum um mál á Alþingi geta haft áhrif þegar skýra þarf efni og innihald þeirra lagareglna sem á reynir. Í þessari skýrslu er t.d. að finna tvö dæmi sem ég rakst á um slíkt. Er það annars vegar í máli um gjaldtöku fyrir táknmálstúlkun í þágu heyrnarlausra og heyrnarskertra, á bls. 77, og hins vegar hvernig bæri að skýra orðið endurnýjun þegar kom að úthlutun tiltekinna veiðiheimilda, á bls. 139.

Allsherjarnefnd Alþingis hefur fjallað um skýrslu umboðsmanns og fengið umboðsmanninn og starfsmenn hans til fundar við sig svo sem venja hefur skapast um undanfarin ár.

Ég vil að síðustu þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir vel unnin störf og árangursrík á liðnu ári.