133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[13:37]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun ber henni að semja skýrslu um störf sín á liðnu almanaksári og leggja fyrir Alþingi. Ársskýrslan fyrir síðasta ár var gefin út og birt í febrúar síðastliðnum. Í henni er m.a. gerð grein fyrir starfsskýrslu stofnunarinnar, starfsemi hennar á árinu 2005 og markmiðum með endurskoðun á leiðum á því sviði. Jafnframt er gerð grein fyrir þeim skýrslum, leiðbeiningaritum og greinargerðum sem stofnunin gaf út á árinu og fyrir starfi einstakra sviða stofnunarinnar. Þá eru í skýrslunni raktar ýmsar kennitölur um umsvif og árangur í störfum Ríkisendurskoðunar á árinu 2005. Loks er í skýrslunni að finna greinar eftir nokkra starfsmenn hennar um efni er tengist hlutverki og störfum stofnunarinnar. Hér á eftir mun ég stikla á stóru úr starfsemi Ríkisendurskoðunar á síðasta ári.

Fjárheimildir Ríkisendurskoðunar í fjárlögum og fjáraukalögum ársins 2005 námu alls 360 millj. kr. og hækkuðu um 12,9% frá árinu á undan. Rekstrarútgjöld Ríkisendurskoðunar að frádregnum tekjum af seldri þjónustu námu alls rúmum 342 millj. kr. á árinu 2005 og hækkuðu um 13,2% frá árinu 2004. Rekstur stofnunarinnar var því 18 millj. kr. innan fjárheimilda ársins.

Eins og samandreginn rekstrarreikningur sýnir nam launakostnaður stofnunarinnar tæplega 292 millj. kr. og hækkaði hann um 33 millj. á milli ára. Stærsti einstaki rekstrarkostnaðarliðurinn er aðkeypt sérfræðiþjónusta og nam sá kostnaður 35 millj. kr. á síðasta ári. Þessi kostnaður lækkaði lítið eitt á milli ára. Af þeirri sérfræðiþjónustu eiga um 30 millj. kr. rætur að rekja til samninga um þjónustu 11 endurskoðunarskrifstofa um endurskoðun hjá 45 A-hluta stofnunum. Sértekjur stofnunarinnar lækkuðu um 4 millj. kr. milli ára.

Í árslok 2005 voru starfsmenn Ríkisendurskoðunar 49 talsins. Af fastskráðum starfsmönnum voru karlmenn 28 eða 57% og konur 21 eða 43%. Þetta er svipað hlutfall og tvö undanfarin ár.

Ríkisendurskoðun leggur mikla áherslu á skilvirkni og gæði í störfum sínum. Lögð er áhersla á að standa við þær áætlanir sem gerðar eru hverju sinni og mæta þörfum þeirra sem taka ákvarðanir um rekstur stofnana og fyrirtækja ríkisins með því að ljúka skýrslum og greinargerðum tímanlega og að þær komi þeim að gagni. Á undanförnum árum hefur að jafnaði tekist að gefa út endurskoðaða ársreikninga fyrir allar stofnanir í A-hluta ríkisreiknings auk stofnana í B-, C-, D- og E-hluta hans.

Á árinu áritaði stofnunin 344 ársreikninga og skilaði samtals 238 endurskoðunarskýrslum á sviði fjárhagsendurskoðunar miðað við 357 ársreikninga og 259 endurskoðunarskýrslum árið 2004. Hækkunin nam um 5,5% á milli áranna 2004 og 2005.

Eins og rakið er í skýrslunni er ljóst að innleiðing nýs fjárhagskerfis ríkisins setti talsvert strik í reikninginn að þessu sinni og olli því að endurskoðun stofnana tók að jafnaði lengri tíma en áður. Stefnt er að því að fjölga endurskoðunarskýrslum á komandi árum. Þá áformar stofnunin að ljúka áritun reikningsskila stofnana fyrr á árinu en hefur verið til þessa svo að þau nýtist þeim sem best. Forsenda þess er þó að stofnanir loki bókhaldi sínu að jafnaði fyrr en þær hafa gert til þessa.

Auk þess að votta að reikningsskil stofnana sem gefi glögga mynd af rekstri og efnahag þeirra og sé í samræmi við góða reikningsskilavenju er Ríkisendurskoðun ætlað að kanna hvernig þær ráðstafa fjárheimildum sínum samkvæmt fjárlögum, umsvifum þeirra og árangri. Heildarafrakstur þeirrar vinnu Ríkisendurskoðunar á árinu 2005 birtist gleggst í skýrslu stofnunarinnar, endurskoðun ríkisreiknings 2004. Þar birtist einnig niðurstaða í árvissri könnun Ríkisendurskoðunar á nokkrum völdum þáttum í rekstri stofnana og fyrirtækja ríkisins. Markmið þessara kannana er að auka aðhald í ríkisrekstri, bæta umhirðu með eignum og fjármunum hins opinbera og efla innra eftirlit stofnana. Á síðasta ári var einkum hugað að húsnæðismálum stofnana, heimanotkun starfsmanna á tölvubúnaði, tilhögun símamála og aðkeyptri þjónustu vegna upplýsingamála. Ekki er vafi á því að skýrslur þessar hafa komið ýmsu góðu til leiðar. Meðal vísbendinga um það er sú staðreynd að á síðustu árum hefur athugasemdum Ríkiendurskoðunar um meðferð bókhaldsgagna fækkað mjög.

Auk þess að kanna fjárhagslegt innra eftirlit stofnana og fyrirtækja við fjárhagsendurskoðun hefur stofnunin lagt vaxandi áherslu á að kynna stjórnendum þeirra hvað felist í innra eftirliti sem og helstu áhættuþætti í opinberum rekstri.

Úttektir Ríkisendurskoðunar á innra eftirliti hafa m.a. leitt í ljós að margar stofnanir hafa gripið til aðgerða vegna viðkvæmra verkþátta í eigin starfsemi. Í tengslum við innra eftirlit lauk Ríkisendurskoðun m.a. við tvær viðamiklar skýrslur á síðasta ári. Laut önnur að Landsvirkjun og hin að Landmælingum Íslands. Að auki hófst vinna við fjórar skýrslur af þessum toga á síðasta ári og lauk þeim öllum í ár. Líkt og skýrslur stofnunarinnar um fjárhagsendurskoðun eru skýrslur um innra eftirlit aldrei gerðar opinberar enda verða þær oftar en ekki viðkvæm innri mál stofnana og fyrirtækja.

Þegar horft er til annarra skýrslna Ríkisendurskoðunar, þ.e. greinargerða og úttekta á sviði stjórnsýslu og endurskoðunar og endurskoðunar upplýsingakerfa, sést að þar varð nokkur samdráttur árið 2005 miðað við undanfarin ár. Alls gaf stofnunin út 8 opinberar skýrslur eða tveimur færri en árið 2004 og einni færri en árið 2003. Þá voru samdar 11 greinargerðir miðað við 15 árið 2004 og 17 árið 2003. Svo sem jafnan áður spanna skýrslur þessar og greinargerðir vítt svið. Viðamestu skýrslurnar voru annars vegar stjórnsýsluúttekt á Háskóla Íslands og hins vegar skýrsla um árangurinn af sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Lokið var við úttekt á heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi og úttekt á kaupum ríkisins á sérfræðiþjónustu auk stjórnsýsluúttektar á þjónustu við aldraða.

Þá skilaði stofnunin skýrslu um aðdraganda og gerð lánasamninga Íbúðalánasjóðs við fjármálastofnanir vegna áhættustýringar. Að auki skilaði hún Alþingi árlegum skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga og endurskoðun ríkisreiknings. Með stjórnsýsluúttektum sínum leitast Ríkisendurskoðun einkum við að leggja mat á hagkvæmni rekstrar, skilvirkni og árangur og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt. Hluti úttektanna er saminn að beiðni forsætisnefndar Alþingis, einstakra ráðuneyta eða ríkisstofnana en hluti að frumkvæði stofnunarinnar sjálfrar þar sem m.a. er tekið mið af mikilvægi viðfangsefna, kostnaði og áhættu. Stofnunin hefur á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að treysta þessar úttektir sínar með ýmiss konar samanburði bæði innlendum og erlendum. Skýrslurnar veita því ekki aðeins sértækar upplýsingar um tilteknar stofnanir heldur einnig um stöðu þeirra innan þess málaflokks sem þær tilheyra eða jafnvel um stöðu tiltekins málaflokks í heild sinni. Glöggt dæmi um skrif af þessum toga eru skýrslurnar um Háskóla Íslands, Landspítala – háskólasjúkrahús og þjónustu við aldraða.

Til fróðleiks skal þess getið að á síðasta ári tók Ríkisendurskoðun upp á þeirri nýbreytni að kanna með beinum hætti álit valins hóps lesenda utan stofnunarinnar á gæðum stjórnsýsluúttekta hennar, styrk þeirra og veikleika. Gerðar voru tvær slíkar kannanir vegna skýrslnanna um Háskóla Íslands og þjónustu við aldraða. Óskað var eftir mati lesenda á átta efnislegum og formlegum atriðum sem stofnunin hefur sérstaklega í huga við skýrslugerð. Áður fengu skýrslurnar góða einkunn og er stofnunin fullsátt við niðurstöðuna en lítur jafnframt á hana sem hvatningu til að gera enn betur. Sérstaka ánægju vakti að mikill meiri hluti lesenda taldi skýrslurnar aðgengilegar, röklega upp byggðar og skrifaðar á góðu og skiljanlegu máli. Viðleitni stofnunarinnar á undanförnum árum til þess að bæta þessa þætti og koma til móts við almenna lesendur virðist því augljóslega hafa skilað árangri.

Auk þess að kanna afstöðu lesenda til skýrslna Ríkisendurskoðunar hefur hún m.a. reynt að mæla skilvirkni sína með því að mæla hve langan tíma tekur að vinna tiltekin verk. Samanburður síðustu þriggja ára á þeim tíma sem tekur að vinna skýrsluna Endurskoðun ríkisreiknings frá því að ríkisreikningurinn er gefinn út sýnir að vel hafi verið að verki staðið árið 2005. Stofnunin telur engu að síður mikilvægt að endurskoðun ríkisreiknings sé lokið fyrr á árinu en verið hefur undanfarin ár svo vinnan nýtist Alþingi betur við fjárlagagerð. Þau verkefni sem ekki verða heimfærð beint undir endurskoðun, sem og almenn starfsemi stofnunarinnar voru með hefðbundnu sniði á árinu 2005. Hér er einkum átt við eftirlit með staðfestum sjóðum og sjálfseignarstofnunum, eftirlit með reikningsskilum sókna og kirkjugarða, námskeið, endurmenntun starfsmanna o.fl.

Ríkisendurskoðun er í umtalsverðum alþjóðlegum samskiptum á sínu sviði. Hún er aðili að ýmsum fjölþjóðlegum samtökum um endurskoðun auk þess sem hún hefur gott samband við systurstofnanir í nágrannaríkjunum. Þá má nefna að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi var á síðasta ári kjörinn í átta manna stjórn Evrópusamtaka ríkisendurskoðana, EUROSAI og er það í fyrsta sinn sem Íslendingur tekur sæti í stjórn þessara samtaka og var einmitt fundur hjá samtökunum hér á landi núna í haust.

Það fer ekki á milli mála að alþjóðleg samskipti eru Ríkisendurskoðun afar mikilvæg til að kynnast þeim aðferðum og vinnubrögðum við endurskoðun sem talin eru henta best hverju sinni og bera sig saman við sambærilegar stofnanir erlendis. Í því samhengi má m.a. nefna að norrænar ríkisendurskoðanir hafa nú um þriggja ára skeið unnið að því í sameiningu að þróa kennitölur um starfsemi stofnananna. Auk þessa er ljóst að hnattvæðing síðari ára og stóraukið vægi alþjóðlegra stofnana og samninga hefur knúið á um aukið alþjóðlegt samráð og samráð um endurskoðun. Með svipuðum hætti og í ársskýrslu stofnunarinnar fyrir árið 2004 fjalla fjórir starfsmenn stofnunarinnar sérstaklega um nokkra þætti er lúta að starfsemi hennar fyrir liðið ár í skýrslunni. Þeir fjalla um þjónustuhlutverk Ríkisendurskoðunar, vinnubrögð í stjórnsýsluendurskoðun, áhættustjórnun og innra eftirlit og loks þróun umhverfis endurskoðunar. Þessi umfjöllun veitir nokkra innsýn í dagleg störf stofnunarinnar.

Eins og ég gat um í ræðu minni um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar á seinasta þingi þá tel ég brýnt að skýrsla Ríkisendurskoðunar fái hliðstæða umræðu í fjárlaganefnd Alþingis og skýrsla umboðsmanns fær í allsherjarnefnd Alþingis. Ég hef því beitt mér fyrir því að fjárlaganefnd fari yfir þessa skýrslu ásamt ríkisendurskoðanda. Í því sambandi vil ég geta þess að ég mun kanna hvort ekki sé unnt við þá vinnu sem nú er í gangi við endurskoðun þingskapa að taka upp ákvæði um meðferð þessara skýrslna þannig að tryggt sé að fjárlaganefnd og allsherjarnefnd fjalli um efni þeirra áður en umræða um skýrslurnar fer fram á Alþingi.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég fyrir hönd Alþingis flytja Ríkisendurskoðun og starfsmönnum hennar þakkir fyrir vel unnin störf á því ári sem hér hefur verið fjallað um.