133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:07]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er búið að fara vel yfir efni þessarar skýrslu í ræðu hæstv. forseta, Sólveigar Pétursdóttur, þannig að ég ætla ekki að rekja mikið af efni hennar. Ég ætla þó að víkja að nokkrum atriðum, hæstv. forseti.

Þær skýrslur sem hér eru taldar upp sem opinberar skýrslur árið 2005, eins og komið hefur fram, eru skýrsla um Háskóla Íslands, stjórnsýsluúttekt; skýrsla frá því í júní sl. um hæfi Halldórs Ásgrímssonar, forsætisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, til að fjalla um sölu og hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins; greinargerð um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2004; Heilbrigðisstofnun á Blönduósi, stjórnsýsluúttekt; úttekt á sálfræðiþjónustu í október; úttekt á þjónustu við aldraða; endurskoðun ríkisreiknings; úttekt á Íbúðalánasjóði og aðdraganda í gerð lánasamninga og úttekt á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

Af því sem hér er upp talið varðandi opinberar skýrslur er hægt að orða það þannig að við höfum aðeins fjallað um eina af þessum skýrslum í fjárlaganefnd. Það var skýrslan um hæfi Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Ég tel hins vegar fullt tilefni til þess, hæstv. forseti, og þess vegna fer ég yfir það hvaða skýrslur hér er um að ræða, að í fjárlaganefnd verði tekið til verka við það eftir áramót þegar mestu önnunum í fjárlaganefnd lýkur að fara yfir skýrslur, að þær verði teknar þar til umræðu og eytt í það einhverjum vinnustundum að fara yfir úttektirnar og ræða skýrslurnar. Þannig verði það krufið til mergjar sem í þeim er og nefnd þingsins skoði skýrslurnar, kynni sér þær vel og ræði, til þess m.a. að draga af þeim lærdóm því að þetta eru vel unnar og gagnmerkar skýrslur.

Eins og ég sagði áðan er úttektin um hæfi Halldórs Ásgrímssonar þegar um var að ræða einkavæðinguna á bönkunum eiginlega eina skýrslan sem við ræddum.

Þetta vildi ég láta koma hérna fram, hæstv. forseti, og tel að tilefni sé til þess að taka í fjárlaganefnd sérstaka umfjöllun um þessar skýrslur á þeim tíma sem fjárlaganefnd er ekki í miklum önnum sem ætti þá að vera eftir áramót og fram að vori og að virkilega verði eytt vinnu í það að fara yfir skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Á bls. 28 í skýrslunni kemur fram lýsing á hugsanlegri hagkvæmni í því að reka Ríkisendurskoðun. Það verður að segjast alveg eins og er að það er ekki annað að sjá þegar við berum saman kostnað við úttektir sem þar birtist en að það sé hagkvæmt rekstrarform fyrir ríkið að hafa stofnun eins og Ríkisendurskoðun þegar borinn er saman kostnaður á klukkustund hjá henni við aðkeypta þjónustu. Að vísu má svo sem um þetta deila en ég tel að þarna sé skýrt dregið fram að það sé hagkvæmt að reka Ríkisendurskoðun og að þar sé vel unnið fyrir þær krónur sem ríkið lætur í þessa vinnu sem við viljum fá frá stofnuninni. Það er rétt að vekja athygli á þessum samanburði.

Í inngangsorðum formála ríkisendurskoðanda í skýrslunni segir á miðri bls. 5, með leyfi forseta:

„Ein meginskýring þess að ekki hefur tekist sem skyldi að innleiða nýja stjórnunarhætti er sú að hingað til hefur einungis lítill hópur stjórnenda hjá opinberum stofnunum tileinkað sér stefnumiðuð vinnubrögð. Stjórnmálamenn þurfa einnig að koma fram á völlinn og hafa forustu um innleiðingu nýrri vinnubragða. Víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við setja stjórnmálamenn bæði stefnu og mælanleg markmið í einstökum málaflokkum og fylgjast síðan grannt með framgangi mála með árangursmælingu.“

Þetta eru nokkuð merkileg orð, hæstv. forseti, sem hér eru sett fram af ríkisendurskoðanda. Við verðum auðvitað að líta til þess að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa verið við völd í langan tíma og það verður að líta til þess að ríkisendurskoðandi beinir hér orðum til þeirra sem hafa haft völdin í landinu og stjórnað ríkiskerfinu, haft yfir stofnunum að segja o.s.frv. Þó að vissulega beini hann síðan orðum almennt til stjórnmálamanna um að þeir geti komið fram á völlinn og innleitt ný vinnubrögð verður samt að vekja athygli á því vegna þeirra orða sem hér standa að sömu flokkar eru búnir að vera við völd, Sjálfstæðisflokkurinn í tæp 16 ár og Framsóknarflokkurinn tæp 12. Ég hygg að það megi líta svo á að ríkisendurskoðandi vísi sérstaklega til þeirra sem með stjórnunina og völdin hafa farið þegar maður lítur á þessi orð. (JBjarn: … að það þurfi að skipta um ríkisstjórn? Það er rétt.) Ég veit ekki hvort maður á beinlínis að draga þá ályktun, hv. þm. Jón Bjarnason, en þó kann vel að vera að ríkisendurskoðandi sé að segja það undir rós. En af því að hann er náttúrlega opinber embættismaður gengur hann ekki lengra í orðum sínum en hér er sett í texta af skynsömum manni.

Við drögum auðvitað af því okkar ályktanir sem fjöllum um þessa skýrslu og höfum vafalaust hver sína skoðun á því. Ég er ekkert viss um að hv. þm. Jón Kristjánsson sé alveg sammála þessari útleggingu minni, svo að við tökum dæmi.

Hér er auðvitað vísað til þess að taka megi upp öðruvísi vinnubrögð og markvissari og fylgja eftir þeirri stefnumörkun sem náðist fram. Þá getum við líka spurt okkur í stjórnarandstöðunni: Hverjir ná fram stefnumörkun í sínum málum? Jú, það eru stjórnarflokkarnir. Það er viðtekin venja hjá hv. Alþingi að stjórnarflokkarnir rúlla sínum málum í gegn. Stjórnarandstaðan hefur fengið samþykktar 1–2 þingsályktanir á ári og kannski 1–2 frumvörp þegar vel liggur á stjórnarflokkunum. Það liggur alveg ljóst fyrir hvert þessum orðum er ætlað að fara. Það þarf enginn að fara í neinar grafgötur með það hvað í skýrslunni stendur í þessum orðum ríkisendurskoðanda eins og þau eru hér upp sett vegna þess að tilefnið er auðvitað það hvernig hefur verið staðið að stjórnarháttum á undanförnum árum. Verkin tala og sýna merkin.