133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:24]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2005 og mér finnst mikilvægt að koma inn á það í upphafi að engum vafa er undirorpið að Ríkisendurskoðun er ein af tveimur mjög mikilvægum eftirlitsstofnunum í ríkisvaldinu sem heyra undir Alþingi. Við ræddum um skýrslu hinnar fyrri, þ.e. umboðsmanns Alþingis, fyrr í dag. Því er mikilvægt að ræða hvernig hægt er að renna styrkari stoðum undir þær eftirlitsstofnanir og sjálfsagt að gera það. Ég ætla þó ekki að fara ítarlega í það nú heldur vil ég ræða sérstaklega meðferð þeirra skýrslna sem koma frá Ríkisendurskoðun.

Virðulegi forseti. Við vitum að skýrslurnar sem Ríkisendurskoðun hefur gert, þ.e. stjórnsýsluúttektirnar, hafa haft heilmikið að segja og eru mjög vel úr garði gerðar. Það kemur glögglega fram, einkanlega í þeim nýjustu og vil ég sérstaklega nefna þá skýrslu þar sem gerð var úttekt á Háskóla Íslands. Þar er gerður mjög góður og mikilvægur samanburður á innlendum og erlendum háskólum og líka ekki síst, sem er mikilvægt í þessu, að varpað er ljósi á stöðu þessara stofnana innan málaflokksins. Í skýrslunni kemur fram að þetta sé eitt markmiðanna og eins og þar segir, að þær eigi ekki að veita aðeins sértækar upplýsingar um tilteknar stofnanir heldur einnig um stöðu þeirra innan þess málaflokks sem þær tilheyra eða jafnvel um stöðu tiltekins málaflokks í heild sinni.

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta skipta gríðarlegu máli og ég tel að þetta hafi tekist ágætlega eins og með skýrsluna um Háskóla Íslands og varð hún heilmikið fóður í gríðarlega mikla umræðu í samfélaginu. En það hvernig vinnubrögðin eru í tengslum við skil á svona skýrslum hérna innan þingsins er ég ósátt við. Þar þurfum við að gera mikla bragarbót á og við þurfum að koma því í fastan farveg hvernig við vinnum með stjórnsýsluúttektir innan þingsins. Það er ekki í föstum farvegi og einstaka nefndir hafa tekið þær upp til umræðu en það kemur ekkert út úr því. Það verður umræða um skýrsluna, oft góð og gagnmerk umræða, en það kemur ekkert út úr henni. Það sem þarf að gera er að fara skipulega í gegnum stjórnsýsluúttektirnar og gera síðan tillögur um úrbætur í kjölfarið á þeim. Til að þetta geti gerst þarf að koma því í fastan farveg hvernig á skýrslunum er tekið.

Við ræddum þessa skýrslu örlítið í fjárlaganefnd í morgun og þar kom fram að þegar breska ríkisendurskoðunin hefur skilað af sér skýrslum er sérstök nefnd í breska þinginu sem fer yfir þær. Þar er það þannig að formaðurinn tilheyrir minni hlutanum á breska þinginu. Þetta er ein hugmynd að því hvernig vinna megi sterklega að framgangi skýrslna í kerfinu þannig að það komi raunverulegar tillögur út úr því.

Einnig er hægt að fara þá leið að fagnefndir séu látnar fara skipulega í gegnum skýrslurnar og þær skili síðan tillögum til úrbóta í kjölfarið. Því það er að mínu mati mikil sóun á góðu efni og góðri vinnu hvernig við höfum farið með þessar skýrslur, ef ekki er tekið skarplega á þeim og gerðar einhverjar úrbætur.

Í skýrslunni sem um ræðir núna, skýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2005, kemur fram í grein á bls. 17 að þessum skýrslum sé ætlað að nýtast Alþingi, ráðuneytum og stofnunum við lagasetningu, stefnumótun og umbætur í stjórnun og rekstri. Ég vil líta svo á, virðulegi forseti, að hér sé ekki einkum um einhverja upplýsingagjöf að ræða sem menn eigi að ræða sér til gamans heldur eigi menn að taka þessar skýrslur grafalvarlega og vinna úr þeim tillögur.

Virðulegi forseti. Mig langar líka að nefna að það eru ekki bara stjórnsýsluúttektir á einstaka stofnunum sem Ríkisendurskoðun hefur unnið að. Árlega kemur út mikilvæg skýrsla frá Ríkisendurskoðun sem fjallar um framkvæmd fjárlaga ríkisins. Í þeim skýrslum hefur ríkisendurskoðandi ítrekað gagnrýnt það hvernig farið er í kringum fjárreiðulögin og þar hefur ýmislegt verið gagnrýnt varðandi fjárlagagerðina og líka eftirlitið með framkvæmd fjárlaga. Þetta, virðulegi forseti, er eitthvað sem við höfum heyrt hér ár eftir ár, gagnrýni á þetta. Við í stjórnarandstöðunni höfum einnig ítrekað bent á þetta, ekki síst út frá umræddum skýrslum og þetta er enn eitt dæmið um að ekkert er gert til úrbóta, ekki neitt, vegna þess að það sama er sagt í þessum skýrslum ár eftir ár.

Við þurfum að fara að taka þetta alvarlega og ég vil brýna það fyrir hæstv. forseta og hv. þingmanni sem þetta kynnti, Sólveigu Pétursdóttur, að því verði komið í fastari skorður hvernig á þessum skýrslum er tekið, gagnrýni á þær og að unnið sé með þær á uppbyggilegan hátt þannig að það verði ekki eingöngu gagnrýni sem kemur fram aftur og aftur, heldur verði unnið með þær á uppbyggilegan hátt svo að þetta gagnist í vinnu innan þingsins því annars er marklaust að halda þessu úti. Hugsanlega eru deildar meiningar einstaka sinnum um niðurstöður Ríkisendurskoðunar. Einmitt þess vegna skiptir máli að þetta fái vandaða þverpólitíska meðferð innan þingsins.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vil ítreka í lokin að við verðum að fara yfir þessar skýrslur og það er bara út í hött að ekki sé búið það gera það miklu fyrr, þar sem þingið er klárlega ekki að sinna eftirlitsskyldu sinni með framkvæmd fjárlaga. Við höfum séð það ár eftir ár að allt of margar stofnanir eru of- eða vanáætlaðar í fjárlögum. Þegar á þetta hefur verið bent er ekkert gert með það heldur virðist ríkisstjórnin loka augunum fyrir þeim staðreyndum og í þessu birtist ákveðin veiking á stöðu Alþingis Íslendinga vegna þess að Alþingi á auðvitað að vera sterkur og skipulegur eftirlitsaðili með framkvæmd fjárlaga, sem hann er ekki í dag.

Ég tel, virðulegi forseti, að á þessu verði að taka og það sem fyrst og ég vil brýna hv. þm. Sólveigu Pétursdóttur til að koma þessum skýrslum í fastari farveg hér innan húss, innan þingsins, og þá ekki síst til að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og styrkja eftirlitshlutverk þingsins frá því sem nú er vegna þess að ég tel það afar veikt.