133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:58]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður er líkt og félagi hans, Jóhann Ársælsson, að draga í land í þessum efnum. (Gripið fram í.) Við getum svo sem tekið umræðu um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu en ég held kannski að það sé ekki hlutverk okkar í þessari umræðu.

Hv. þingmaður sagði áðan að margir hefðu haldið því fram að Halldór Ásgrímsson væri ekki hæfur. Það getur vel verið, en niðurstaða Ríkisendurskoðunar liggur fyrir um þessi efni. Ætli hv. þingmaður hefði talið það hlutverk Ríkisendurskoðunar að setja fram slíkt álit ef niðurstaða hennar hefði verið á annan veg? (Gripið fram í: Hvað sagði ég?) Hvað skyldi hv. þingmaður þá hafa sagt? Ætli hann hefði ekki staðið hér í ræðustól og veifað áliti Ríkisendurskoðunar um það að Halldór Ásgrímsson væri ekki hæfur til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum?

Hæstv. forseti. Menn geta ekki komið hér upp og hringlað með þetta af því að niðurstaðan er ekki hv. þingmönnum þóknanleg.