133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:09]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður fjárlaganefndar, nefndi í ræðu sinni að hann teldi mikilvægt að Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðandi væru ráðgefandi fyrir fjárlaganefnd hvað varðar vinnslu, gerð og framkvæmd fjárlaga.

Virðulegi forseti. Ég er honum algjörlega ósammála um að mark sé tekið á Ríkisendurskoðun. Það er mikilvægt að ríkisendurskoðandi sé ráðgefandi og tekið sé mark á athugasemdum hans og ráðgjöf. Það hefur fjárlaganefnd ekki gert og ekki heldur þessi ríkisstjórn. Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2005 máli mínu til stuðnings.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á að fjárlög hvers árs, sem samþykkt eru af Alþingi, feli í sér heimildir sem ráðuneytum og stofnunum beri að virða. Í 41. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið á um að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“.

Þá hefur stofnunin ítrekað bent á að mikil frávik frá fjárlögum ár eftir ár séu til marks um meira agaleysi í fjárlagagerð og framkvæmd fjárlaga hér á landi en tíðkast í löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við.“

Virðulegi forseti. Á öðrum stað í þessari skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Ófært er að mál sem þessi séu látin velkjast ár eftir ár án þess að gripið sé til viðeigandi ráðstafana.“ — Þarna er verið að tala um heimildir sem eru látnar velkjast milli fjárlagaára.

Virðulegi forseti. Bæði þessi orð úr skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í sumar sem og reynsla okkar sem störfum í fjárlaganefnd, vinnum með þessi fjárlög og erum í fjárlagavinnunni, bendir til að ekki sé nægjanlegt mark tekið (Forseti hringir.) á athugasemdum Ríkisendurskoðunar.