133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:13]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki að búa til ágreining heldur bendi ég á hvernig farið hefur verið með skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga. Þar kemur skýrt fram að sömu ábendingarnar hafi komið ár eftir ár eftir ár.

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að hv. þingmaður, ég veit það, vill bæta fjárlagagerðina. Hins vegar er vandinn sá að það hefur ekki verið gert. Það er ekki gert. Það er mikill munur á því að lýsa yfir vilja til einhvers og þess að framkvæma það.

Hæstv. forseti. Mér finnst mikilvægt að benda á þetta. Það er bara staðreynd að við erum t.d. núna að vinna að frumvarpi til fjáraukalaga. Í því frumvarpi eru verkefni sem eiga alls ekki heima þar, þrátt fyrir síendurtekna leiðbeinandi ráðgjöf eða ábendingar frá Ríkisendurskoðun og fleirum í þeim efnum. Enn í dag og núna í ár vinnum við að fjáraukalagafrumvarpi sem ekki stenst að öllu leyti fjárreiðulög.

Virðulegi forseti. Ég bendi á þetta en auðvitað fagna ég því ef við förum raunverulega í þá vinnu í fjárlaganefnd að bæta vinnubrögðin, hvernig við tökum á þessum skýrslum og að eitthvað verði gert í málinu. Það er ekki nóg að hafa bara viljann að vopni, lýsa vilja sínum ár eftir ár eftir ár. Við verðum að gera eitthvað í þessu. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að hann vilji gera eitthvað í málinu, enda nýr formaður fjárlaganefndar. Ég brýni hann til að gera eitthvað í þessu.