133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:24]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða mjög mikilvæga stofnun, sjálfa Ríkisendurskoðun. Það skiptir afar miklu máli að góð sátt ríki um þá stofnun og vissa um að engin óhlutdrægni sé í starfsemi hennar. Þetta er mjög góð stofnun og mest af þeirri vinnu sem kemur frá henni er góð. En samt sem áður eru uppi mjög ríkar efasemdir um óhlutdrægni stofnunarinnar. Það þýðir ekkert að koma, eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson gerði, og vera með einhverjar málfundaréttlætingu og útúrsnúninga.

Það er einfaldlega svo að það ríkja efasemdir um óhlutdrægni stofnunarinnar og m.a. í því máli sem hefur verið nefnt hér, í máli fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Það skiptir verulega miklu máli fyrir stofnunina að kafað verði ofan í þetta mál.

Þegar mikil umræða var um mál hans í þjóðfélaginu og það var farinn að myndast verulegur þrýstingur á stjórnvöld. Hvað gerðist? Ríkisendurskoðandi kom með álit. Þar segir hann á bls. 2, með leyfi forseta:

„Rétt þykir áður en lengra er haldið að taka fram að svar við spurningum um hæfi eða vanhæfi stjórnvaldshafa er lögfræðilegt álitaefni, sem löggjafinn hefur alls ekki ætlað Ríkisendurskoðun að leysa úr.“

Það er sem sagt ríkisendurskoðandi sem á að vera hafinn yfir allan vafa um hlutdrægni, sem segir sjálfur að hann sé að gera eitthvað sem honum sé ekki ætlað að gera. Þannig að þetta eitt, í svona vafasömu máli, það ætti að vera til þess að farið verði ofan í starfshætti stofnunarinnar.

Við megum ekki gleyma því að í þessu máli er uppi grunur, rökstuddur grunur, og í rauninni vissa um að þáverandi ráðherra hafi selt fyrrum varaformanni sínum ríkiseigur. (Gripið fram í.) Hann seldi Búnaðarbankann og það sem meira er, það var gert með því að ýta öðrum kaupendum til hliðar, m.a. á þeim forsendum að kaupendahópurinn hefði kjölfestufjárfesta, þýskan banka. Allir sem fylgst hafa með vita hvað varð um þann þýska banka, hann gufaði bara upp. Sú kjölfesta var ekki meiri en svo að hún gufaði upp á einu ári.

Þannig að það eitt er ekki hafið yfir efasemdir, að verða vitni að því að formaður selji fyrrum varaformanni sínum heilan banka. Ég sé að framsóknarmenn hrista hausinn en þetta eru réttmætar efasemdir sem hefur verið gerð úttekt á, m.a. í Fréttablaðinu. Þar kom fram, og reyndar líka í skýrslum ríkisendurskoðanda, að kaupendahópurinn breyttist á tímabilinu. Hann breyttist því menn voru að hringjast á um hvernig kaupin ættu að gerast á eyrinni. Þannig að það er mjög ódýrt að ætla að eyða þessu tali með því að segja að komið sé eitthvert álit frá ríkisendurskoðanda um að hæfi ráðherra hafi verið staðfest.

En það er rétt að halda því til haga í umræðunni og minna fólk á að einn af nefndarmönnum í einkavæðingarnefndinni gat ekki setið í nefndinni vegna þess að vinnubrögðin voru með þeim hætti að hann ákvað að segja af sér. Það sýnir að þessi vinnubrögð eru alls ekki hafin yfir gagnrýni og það sem Ríkisendurskoðun þarf fyrst og fremst á að halda er að um hana ríki traust. En þessi vinnubrögð stuðla ekki að því.

Við megum ekki heldur gleyma því hverjir það voru sem keyptu í þessari einkavæðingu. Það voru menn sem voru tengdir ráðherranum. Það var, eins og ég sagði áður, varaformaðurinn og innstu koppar í búri Framsóknarflokksins. Þeir reiddu ekki úr fé eigin vasa heldur fengu lán. Það er staðreynd. Fengu lán í ríkisbankanum, Landsbankanum, til þess að einkavæða Búnaðarbankann og fengu síðan þýskan banka með sér í liðið sem síðan gufaði upp. Þeir fengu líka á annan milljarð dollara í afslátt og kaupfrest. Þetta mál er því ákveðinn blettur sem þarf að þvo af stofnuninni. Það er ekki hægt að fara í gegnum umræðu um skýrslu ríkisendurskoðanda nema að ræða þessa hluti. (Gripið fram í: Hlægilegt.)

Ég heyri það að hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni finnst þetta hlægilegt. En mér finnst þetta alvarlegt og ég veit að mörgum finnst þetta mjög alvarlegt og alls ekki hlægilegt. Það er heldur ekki hlægilegt að við söluna á Landsbanka Íslands var lægsta tilboði tekið.

Herra forseti. Það er nú svo, að áður en sú sala fór fram þá var reyndar eignarhlutur bankans í Vátryggingafélagi Íslands seldur. Hverjum var hann seldur? Hann var seldur sama hópi, S-hópnum. Og hver stóð að þeirri sölu? Það var auðvitað formaður bankaráðsins sem er núna kominn í forsvar fyrir viðkomandi hóp, S-hóp, og stendur í því að kaupa Flugleiðir, eða Icelandair, eins og það heitir — en þetta breytist nú svo ört að það er erfitt að henda reiður á því. Þetta eru staðreyndir málsins. Það má nefna fleiri mál sem eru vafasöm og þyrfti að fara rækilega ofan í.

En mér finnst við ekki geta farið frá þessari umræðu um traust og trúnað ríkisendurskoðanda nema að fara í gegnum þetta og það er líka bara lýðræðisleg skylda að fara rækilega í gegnum þessa einkavæðingu. Ég get lofað fólki því, herra forseti, að við í Frjálslynda flokknum munum fara ofan í saumana á þessu máli ef við komumst til valda í komandi kosningum