133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:42]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði og gerði grein fyrir þeirri afstöðu sinni að engin ástæða væri til að endurskoða þetta og þess vegna er kannski hægt að meta orð hans í því samhengi.

Ég vil bera það til baka að ég sé að koma með gagnrýni mína vegna þess að skýrsla hafi komið fram um hæfi Halldórs Ásgrímssonar. Ég setti gagnrýni mína fram fyrir löngu síðan og tel að halda eigi henni til haga og ekki síst vegna þess að umræða sem kom í kjölfar skýrslunnar opinberaði ákveðna tortryggni gagnvart Ríkisendurskoðun. Við verðum að vera menn á hv. Alþingi til að ræða það og hvort hægt er að breyta því með einhverjum hætti. Ég er þess vegna ekki að draga í land á neinn hátt en það virðist vera venja þessa hv. þingmanns að nota orðin „að draga í land“ um allar ræður sem haldnar eru á undan þeirri ræðu sem hann heldur. Ég held að hann ætti að finna einhvern nýjan frasa.

Ég dreg ekkert í land að neinu leyti af því sem ég hef sagt um þessi atriði. Ég tel að Alþingi eigi að velta því vandlega fyrir sér hvernig eigi að velja ríkisendurskoðanda. Það er ekki heppilegt að hann upplifi sig í höndum valdamanna á hv. Alþingi.