133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:44]
Hlusta

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla í lokin að nota tækifærið og þakka fyrir umræðuna í heild sinni. Hún hefði að vísu mátt vera málefnalegri í lokin að mínu mati. Það er einmitt mjög brýnt að hv. alþingismenn kynni sér þessa vönduðu skýrslu Ríkisendurskoðunar og komi með gagnlegar ábendingar og athugasemdir í því sambandi. Það verður svo að undirstrika að Ríkisendurskoðun er óháð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Um þetta er skýrt kveðið á í lögum og fullyrðingum um að það sé einhverjum vafa undirorpið hlýt ég að vísa á bug. Það er einmitt hlutverk okkar alþingismanna úr öllum flokkum að fjalla sérstaklega um skýrslur og ábendingar Ríkisendurskoðunar.

Hv. alþingismaður Guðjón A. Kristjánsson, 5. þm. Norðvest., og hv. formaður fjárlaganefndar, Birkir Jón Jónsson, 9. þm. Norðaust., vitnuðu einmitt í skýrslu Ríkisendurskoðunar á bls. 5 um þá hvatningu sem þar kemur fram til stjórnmálamanna um að hafa forustu um innleiðingu nýrra vinnubragða í opinberri þjónustu. Það var góð ábending. Ég tel það þess vegna fagnaðarefni að fjárlaganefnd Alþingis fjallaði ásamt ríkisendurskoðanda um ársskýrslu hans fyrir árið 2005 á fundi í morgun. Ég sé því heldur ekkert til fyrirstöðu að fjallað sé um einstakar skýrslur, úttektir og álitsgerðir Ríkisendurskoðunar innan þingsins. Það hefur verið gert áður og ég tel það vera mjög mikilvægt. Og ég fagna orðum hv. formanns fjárlaganefndar í því sambandi.

Ég er sammála því að skýrsla Ríkisendurskoðunar eigi að fara í fastan farveg í þinginu. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni og beitti mér raunar fyrir því að sú skýrsla sem nú er til umræðu var einmitt rædd á fundi fjárlaganefndar í morgun. Ég vil líka vitna til þess sem ég sagði í ræðu minni fyrr í dag, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi vil ég geta þess að ég mun kanna hvort ekki sé unnt við þá vinnu sem nú er í gangi við endurskoðun þingskapa að taka upp ákvæði um meðferð þessara skýrslna þannig að tryggt sé að fjárlaganefnd og allsherjarnefnd fjalli um efni þeirra áður en umræða um skýrslurnar fer fram á Alþingi.“

Enn fremur vil ég taka skýrt fram að forsætisnefnd Alþingis hefur fast samráð við bæði ríkisendurskoðanda og umboðsmann Alþingis og ég get nefnt sem dæmi að þeir koma ávallt á sumarfundi forsætisnefndar og fjalla þar um málefni þeirra stofnana og ýmis álitaefni í tengslum við starfsemi þeirra. Ég tel það rétt sem hér hefur verið bent á að þau störf og þessar stofnanir séu afar mikilvægar fyrir Alþingi. Það þarf og á að veita framkvæmdarvaldinu aðhald.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til Ríkisendurskoðunar og þakka öllu starfsfólki þar fyrir vinnu þess og þá vönduðu skýrslu sem við ræðum í dag.