133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:15]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar sem byggðar eru á vinnu hennar og samræðum við eldri borgara undir forustu hinnar svokölluðu Ásmundarnefndar, sem Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari stjórnaði.

Við fengum sérstakt plagg frá Samtökum aldraðra, a.m.k. við í stjórnarandstöðunni, ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi borist það einnig, um að eldri borgarar séu ekki sammála þeim tillögum sem lagðar eru upp hér að því er varðar ýmsar fjárhæðir og gildistíma þeirra ákvæða sem er í frumvarpi.

Í tillögum frá eldri borgurum hafa þeir einnig bent á að samtök þeirra teldu að það þyrfti að láta þessa hluti koma til framkvæmda eins fljótt og mögulegt væri. Þeir hafa iðulega haft á orði að ekki væri tími fyrir eldri borgara að bíða mjög lengi eftir væntanlegum lagfæringum.

En það er kannski meginefni þessa máls að frumvarpið byggir á því að mikið af þeim pakka sem hér er settur upp af ríkisstjórninni er í biðstöðu þar til á væntanlegum árum 2008 til 2009. Síðan eru ákvæði sem okkur í stjórnarandstöðunni finnst ekki ganga nægilega langt í að stíga markviss skref til að taka á þeim vanda sem ég hygg að við öll á Alþingi séum sammála um að hafi verið til staðar varðandi málefni eldri borgara og þess vegna öryrkja einnig. Þar af leiðandi hafa þessar tillögur væntanlega komið fram og ríkisstjórnin ekki verið tilbúin að teygja sig lengra, eða að minnsta kosti var eldri borgurum sagt það í þeim viðræðum úr þeirri nefnd sem um þessi mál fjallaði.

Hæstv. forseti. Hægt væri að tala í fleiri klukkutíma um fyrirkomulagið sem snýr að eldri borgurum og lífeyrisþegum almennt að því er varðar hinar einstöku útfærslur vegna þess að þær eru tiltölulega flóknar. Það sést náttúrlega best á frumvarpinu að þetta er ekki mjög einföld framsetning ef maður ætlar að lesa lagatextann sem slíkan í þeim búningi sem hann er settur fram. Þess vegna hafa eldri borgarar eðlilega á undanförnum árum kvartað mikið undan því að bótakerfið væri allt of flókið, þ.e. skerðingarreglurnar og tekjutengingarnar, ásamt mismunandi reglum um tekjur eftir því hvaðan þær koma, tengingar eru við maka, fyrir utan það hvað þær eru óréttlátar og þess vegna þurfi að lagfæra þær, bæði reglurnar og eins að fækka þurfi bótaflokkum og draga úr skerðingum.

Auðvitað hefur þetta allt saman miðað að því í málflutningi Samtaka aldraðra að aldraðir vilja bæta kjör sín. Skyldi engan undra. Sú umræða hefur verið hávær og þekkja hana væntanlega orðið allir í þjóðfélaginu.

Einnig liggur fyrir, hæstv. forseti, að við í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram ákveðnar tillögur til að flýta verulega og reyndar auka í við þær tillögur sem lagðar eru fram af ríkisstjórninni og túlkað hefur verið sem samkomulag við eldri borgara, sem þeir hafa reyndar frábeðið sér að því leyti er snýr að lagfæringum á greiðslum og tímasetningum sem koma fram í tillögum ríkisstjórnarinnar. Hafa þeir í rauninni sagt það opinberlega að þeir hafi talið sig vera nauðbeygða til að skrifa undir þetta samkomulag til að ná ákveðnum öðrum atriðum í velferðarmálum fyrir eldri borgara. Þeim hafi í reynd verið stillt upp við vegg. Annaðhvort tækju þeir pakkann eins og hann lægi fyrir eða þeir sætu uppi með að málið væri algerlega óleyst. Líka að því er sneri að vistunarmálum, byggingu húsnæðis og því að vinna á biðlistum, betri aðbúnaði fyrir eldri borgara o.s.frv.

En ég ætla að reyna að einfalda þetta mál, hæstv. forseti. Þess vegna mun ég ekki að lesa og tala mikið upp úr þeim texta sem hér er, heldur einfaldlega eins og ég tel að ég skilji þetta mál. Vegna þess að ég held að það sé miklu betra fyrir þjóðina að við reynum að tala þannig en að reyna að lesa upp úr frumvarpinu.

Þá er þar fyrst til að taka að verið er að gera aðgerð sem vissulega er til einföldunar á kerfinu. Verið er að sameina tvo bótaflokka í kjörum aldraðra sem hafa hingað til gengið undir nafninu tekjutrygging og sérstök tekjutrygging eða tekjutryggingarauki. Verið er að sameina það í einn bótaflokk og kalla nýja tekjutryggingu.

Þær upphæðir sem þarna standa á bak við voru og eru í lögum þannig að tekjutryggingin er um það bil 45 þús. kr. og tekjutryggingaraukinn er einhvers staðar í kringum 23 þús. kr. Þetta er verið að sameina í einn bótaflokk. Síðan er verið að bæta þar í um nokkur prósent og hækka heildartöluna sem út úr þessu kemur. Allt gott um það. Þetta er einföldun á framsetningunni og gerð til þess að fólk skilji þetta betur og auðveldara sé að átta sig á því hvaða bætur er um að ræða í samsettum lágmarksbótum ellilífeyrisþega og Tryggingastofnunar ríkisins, sem allir eiga rétt á þegar þeir verða löggild gamalmenni. Það eru í rauninni aðeins öryrkjar sem lækka við það að verða löggild gamalmenni því að sérgreiðslur til öryrkja detta niður með núverandi lögum þegar þeir verða 67 ára.

Þessar samsettu lágmarksbætur eru grunnlífeyririnn, sem oftast nær í munni eldri borgara, þeirra sem elstir eru, er kallaður gamli ellilífeyririnn, eins og þeir horfðu á hann. Síðan er það tekjutryggingin, tekjutryggingaraukinn og síðan heimilisuppbót. Samanlagt eru þetta samsettar lágmarksbætur ellilífeyrisþega. Í samkomulaginu fólst m.a. það að verið var að hækka þennan bótaflokk um 15 þús. kr. til þeirra sem fengu ekki neitt nema strípaðar bæturnar. Um 400 manns af hópi eldri borgara fengu 15 þús. kr. viðbótina óskerta. Allir aðrir í þeim hópi hafa tekið hana með skerðingu og sumir fá ekki neitt vegna þess að þeir eru með einhverjar aðrar tekjur sem færa tekjubilið upp fyrir það viðmið sem um er að ræða.

Það næsta sem sennilega er rétt að skýra út er að núgildandi regla hjá Tryggingastofnun er sú að heimilisuppbótin, tekjutryggingin og tekjutryggingaraukinn skerðast með svokallaðri 45% reglu. Ef fólk hefur tekjur, aðrar en tekjur frá Tryggingastofnun, hvort sem það eru lífeyristekjur eða atvinnutekjur, þá skerðast þær núna með 45% reglu, þó ekki fjármagnstekjur því að í þær er deilt með tveimur áður en þær valda skerðingu. Þess vegna er það ábyggilega rétt sem hv. þm. Jón Gunnarsson benti á áðan að þeir sem af einhverjum ástæðum greiddu aldrei í lífeyrissjóð en hafa ef til vill eignast fjármagn og fjármagnstekjur, fá í rauninni helmingi minni skerðingu en aðrir. Því byrjað er að deila í fjármagnstekjurnar með tveimur áður en skerðingarreglunni er beitt á bætur Tryggingastofnunar. Þar fyrir utan er svo til viðbótar 10% skattur af þeim tekjum. Um 38% tekjuskattur er af öðrum tekjum lífeyrisþegans úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjum.

Við höfum lagt til í tillögum okkar í stjórnarandstöðunni að sett verði upp 75 þús. kr. frítekjumark varðandi atvinnutekjur. Og einnig höfum við lýst því yfir í okkar tillögum að við vildum skoða hvernig mætti útfæra það yfir á lífeyristekjur úr lífeyrissjóði þannig að þær yllu ekki beinni skerðingu. Við höfum lagt til að í staðinn fyrir þessi 38,35% sem ríkisstjórnin ætlar að fara í með skerðingarhlutfallið væri farið í einu stökki 1. janúar næstkomandi niður í 35% og skerðingarhlutfallið lækkað um 10%. Það væri fyrsta skrefið í að draga úr skerðingunni.

Við höfum einnig lagt til að bæði skerðingarhlutfallið og frítekjumarkið kæmi til framkvæmda 1. janúar næstkomandi en ekki í áföngum innan næsta kjörtímabils. Þó að menn séu að leggja til framkvæmd á sömu hlutum erum við að tala um allt aðra útfærslu. Við í stjórnarandstöðunni erum að tala um útfærslu sem á að stórum hluta að koma til framkvæmda strax um næstu áramót en ríkisstjórnin er að kortleggja þetta inn á næsta kjörtímabil. Vonandi verður hún ekki einu sinni við völd á því kjörtímabili. Það er því ýmislegt í þessum tillögum sem við höfum lagt upp á annan hátt og er rétt að draga inn í umræðuna.

Við höfum enn fremur lagt til að svokallaðir vasapeningar hækkuðu ekki um 25%, eins og er í tillögu ríkisstjórnarinnar, heldur um 50% og færu þar af leiðandi úr 22 þús. kr. í rúmar 33 þús. kr. á mánuði og kæmu til framkvæmda strax.

Það er því fjöldamargt í þessum tillögum sem stjórnarandstaðan hefur lagt til sem kostar fjármuni og við höfum gert grein fyrir því í tillögunum að við teldum að þessi viðbót sem stjórnarandstaðan legði til mundi leggja sig á allt að 6 milljarða kr. ef til framkvæmdar kæmi. Við teljum að stíga eigi það skref nú.

Síðast en ekki síst teljum við að eitt mikilvægasta mál sem hægt er að gera fyrir eldri borgara og öryrkja sé að kortleggja það með neyslukönnun hvað fólk þarf til að komast af. Þess vegna höfum við svarað því í okkar sameiginlegu tillögum að það sem við viljum enda með þegar við erum búin að fá fram gögn og annað slíkt til að vinna inn í framtíðina, þá sé það markmið okkar á komandi árum að tryggja það að fólk komist af á lífeyri sínum. Það sé ekki sjálfgefið og nánast innbyggt í kerfið eins og núna er að ef fólk hefur ekkert nema bara peningana frá Tryggingastofnun þá skuli þurfa að sækja félagslegar bætur hjá bæjarfélögunum. Þannig er það í dag.

Menn hafa aldrei svarað þeirri spurningu hvernig fólk á að komast af á bótunum þó að það sé sagt að allir eigi að hafa afkomu í þjóðfélaginu. Við höfum svarað því og sagt fyrir okkar parta í stjórnarandstöðunni að það eigi að hugsa þær bætur þannig að fólk eigi að komast af á lágmarksréttindum sínum, og viljum vinna að því á komandi árum að þannig megi útfæra það og helst sem allra fyrst. Þess vegna höfum við lagt til að þessi neyslukönnun fari fram fljótt og það lægi fyrir ekki seinna en snemma á næsta ári hverjar afkomutölurnar væru fyrir öryrkja, fyrir eldri borgara o.s.frv., til að hægt verði að leggja mat á hvað við þurfum að aðhafast í þessum tryggingamálum til að ná því markmiði sem við viljum setja okkur. Þannig viljum við einmitt horfa til framtíðar.

Við fögnum því sem fram kemur í tillögunum að taka í sundur tekjur og tekjutengingar milli maka. Teljum að það skref ætti að stíga sem allra fyrst. En hér er því lýst að það skuli gert í áföngum.

Hæstv. forseti. Ég tel að ég hafi í skýru máli, án þess að fara í lagatextann og frumvarpið sem liggur hérna fyrir framan mig, reynt að skýra út hver vilji okkar í stjórnarandstöðunni er og hvert innihaldið er í meginatriðum í tillögum ríkisstjórnarinnar og hvað þar ber á milli.

Það er eitt atriði sem ég hef ekki vikið að. Ég hef ekki vikið að því að við viljum hækka þá tölu sem sett er í bótaflokkinn þar sem verið er að hækka upp í 78.600 kr. Við viljum bæta þar í um rúmlega 6.000 kr. og fara með það upp í 85 þús. kr. fyrir eldri borgara og 86 þús. kr. fyrir öryrkja og það taki gildi strax um næstu áramót.

Þetta er í meginatriðum það, hæstv. forseti, sem ég vildi sagt hafa um málið. Ég vonast vissulega til að þegar málið er komið til nefndar verði eldri borgarar kallaðir fyrir og allir sem málið varða.

Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn hafi þá skynsemi til að bera að lagfæra þær tillögur sem hér eru þannig að lenda megi málinu með sem mestu samkomulagi á hv. þingi með það að markmiði að sem mest af því efni sem er í tillögunum, bæði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, nái að komast til framkvæmda 1. janúar, því að eldri borgarar þurfa á því að halda að þetta komist sem allra fyrst til framkvæmda. Það skiptir máli fyrir fólk sem er komið á efri ár hvenær lagfæring á stöðu þess kemur til framkvæmda. Það er ekki mikil þolinmæði sem eðlilegt er hjá fólki sem er komið yfir sjötugt að bíða í nokkur ár eftir að slík lagfæring taki gildi.

Því vænti ég þess, hæstv. forseti, að tillögur stjórnarandstöðunnar verði skoðaðar með velvild og af fullri alvöru í nefnd og þær teknar til greina hvað varðar lagfæringar á þeim atriðum sem ég hef upp talið. Ef svo verður held ég að ágætissátt gæti orðið í málinu á hv. Alþingi, ella held ég að það verði ekki, enda hafa eldri borgarar lýst því yfir að þeir væru ekki sáttir við þetta plagg, hafa litið svo á að þeir hafi verið nauðugir látnir skrifa undir það til að fá fram félagspakkann. Þannig er það.

Ég held að þetta sé nægilega skýrt talað, hæstv. forseti, og vonast til að málið fái góða og vandaða umfjöllun.