133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:32]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið um málefni aldraðra, lífeyristryggingarnar. Nokkur atriði vil ég sérstaklega draga hérna fram. Það er í fyrsta lagi sú aðferðafræði sem við höfum notað hin seinni ár í samstarfi við eldri borgara. Ég held að það sé mjög æskilegt að nota þá aðferð sem við höfum stuðst við, en hún felst í því að vinna með Landssambandi eldri borgara, viðhafa samráð og samvinnu. Þetta samstarf hófst á sínum tíma og var sett í formlegan farveg og úr því varð samkomulag árið 2002, fyrsta samkomulagið af því tagi. Mjög margar kjarabætur fólust í því samkomulagi og líka bætur á þjónustuþættinum og það var unnið eftir því samkomulagi.

Svo var gerð úttekt á því hvernig staðið hafði verið við samkomulagið og í ljós kom að staðið hafði verið við allt nema eitt atriði stóð út af. Það voru sveigjanleg starfslok. Það var sem sagt staðið við uppbyggingu á öllum hjúkrunarrýmunum og það var alveg tilgreint hvað þau áttu að vera mörg og alls kyns önnur þjónustuúrræði. Ég er nú ekki með þetta gamla samkomulag — ja, gamla. Það eru bara fjögur ár síðan það var gert — ég er ekki með það hérna í höndunum. En ég man að ég kíkti á það á sínum tíma og fór yfir efndirnar. Það var sem sagt staðið við allt nema að ekki var hægt að segja að stjórnvöld hafi gengið frá sveigjanlegum starfslokum. Það stóð út af. Það voru allir sammála um þetta, þ.e. fulltrúar eldri borgara skrifuðu undir hvað hefði verið uppfyllt og hvað ekki þannig að það var ekki hægt að rífast neitt um það eða draga það í efa. Það var staðið við allt nema það stóð út af að landa liðnum um sveigjanleg starfslok.

Þetta tókst svo vel, það kom það mikið út úr þessu, það var hægt að ná það miklu fram með þessari aðferð, að ákveðið var að fara aftur í vinnu af þessu tagi. Nefnd Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara fór í það verkefni og niðurstaðan af því varð nýtt samkomulag sem var í höfn í sumar eins og búið er að ræða hér. Fjölmörg atriði felast í því samkomulagi, annars vegar ákveðinn þjónustuþáttur og hins vegar lífeyrishlutinn.

Varðandi þjónustuþáttinn þá felst í samkomulaginu að byggja upp fjölmörg ný hjúkrunarrými sem verða byggð á næstu fjórum árum. En það er líka verið að stórauka fjármagn til úrræða eins og heimahjúkrunar og það er farið í gang. Það er verið að stórefla heimahjúkrunina. Það er búið að efla hana í ár og það verður gert á næsta ári o.s.frv. á næstu fjórum árum. Það verða lagðar miklar fjárhæðir í heimahjúkrun. Það er mjög mikilvægt af því að við höfum verið að þjónusta fólk að öllum líkindum of lítið heima. Bæði þarf heimahjúkrunin að eflast og ekki síður félagsleg heimaþjónusta sveitarfélaga. Það hefur sýnt sig því miður að meira en helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri þjónustu við aldraða á ákveðnu árabili. Það sýndi skýrsla Ríkisendurskoðunar sem kom út fyrir ekkert mjög svo löngu síðan. Það er áhyggjuefni að sum sveitarfélög hafa verið að draga úr þessari þjónustu. Þetta er þjónustuhlutinn.

Svo varðandi lífeyrishlutann þá erum við að leggja fram lagafrumvarp hér sem tryggir að staðið verði við réttarbætur gagnvart lífeyrishlutanum. Ég tel mjög mikilvægt að draga fram þessa aðferðafræði af því hún felur í sér að aðilar sitja saman á samráðsfundum og forgangsraða því hvað þeim þykir mikilvægast, hvað sé best að gera í stöðunni eins og hún er núna, hvað eigi að vera á oddinum og hvað ekki. Niðurstaðan varð samkomulagið sem við erum einmitt núna að fjalla hér um. Ég er mjög ánægð með þessa niðurstöðu. En að sjálfsögðu munu menn í framhaldinu skoða þessi mál. Þetta er enginn endanlegur sannleikur frekar en fyrra samkomulag. Þetta er þó samkomulag sem við höfum vilja til þess að vinna að á næstu árum.

Þegar vinnunni lauk komu þessar tillögur frá nefndinni. Þær eru tilgreindar hér á blaðsíðum 24 og 25. Þar kemur einmitt fram að nefndin leggi áherslu á að tillögur hennar nái sem fyrst fram að ganga. Svo skrifa aðilar undir með eigin hendi þannig að það er alveg ljóst að lögð var áhersla á að klára þetta mál í sumar en ekki núna í haust. Því var flýtt. Það hefur orðið til þess að við stöndum hér í þessum sporum núna og flytjum lagafrumvarp og nú þegar hefur ýmislegt komið til framkvæmda. Get ég þar til dæmis nefnt að ellilífeyririnn var hækkaður í júlí og vasapeningarnir verða hækkaðir núna um áramótin. En þetta felur það í sér að á þessu ári er verið að setja um 2 milljarða til þessara mála, þ.e. til áramóta, og svo um 4 milljarða á ári frá næstu áramótum. Samtals, þ.e. ef maður tekur uppsafnaðan kostnað vegna þessa samkomulags til ársins 2010 þá felur uppsafnaður kostnaður í sér um 27 milljarða kr. útgjöld og sá kostnaður fellur bæði til ellilífeyrisþega og öryrkja. Stærri hlutinn fellur reyndar til ellilífeyrisþeganna, þ.e. 18 milljarðar kr. til 2010.

Aðferðafræðin er því góð. Þetta form er að mínu mati miklu betra en að vinna að þessum málum — ja, hvernig á maður að orða það — hipsum haps. Það á bara að hafa þetta í ákveðnum farvegi, hafa þetta í nefnd, í samráðsnefnd, búa til samkomulag og vinna eftir því og taka svo málin upp reglulega þegar búið er að vinna að því að koma samkomulaginu í höfn. Ég spái því að þetta verði farvegurinn sem menn muni nota í framtíðinni í málefnum aldraðra af því að það hefur reynst vel.

Hérna hefur orðið nokkur umræða um hve langt eigi að ganga. Það er alveg rétt sem stjórnarandstaðan hefur bent á hér, þ.e. hún hefur flutt sameiginlega annað mál, sameiginlega þingsályktunartillögu um, ja, ekki svo ósvipaða nálgun. Það eru aðrar tölur á því skjali og það er búið að mæla fyrir því máli hér á þinginu. Það var gert núna fyrir ekki löngu síðan og þá fór fram mjög sambærileg umræða að sjálfsögðu.

En ekki má gleyma í þessu sambandi að við höfum byggt kerfið sem við höfum sett upp þannig að það á vera tekjujafnandi. Það er grunnstefið í okkar kerfi. Það þýðir að við viljum hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi. Við viljum greiða þeim sem þurfa á því að halda en ekki öðrum. Ef við greiðum öllum jafnt alltaf væri ekki nein tekjujöfnun í kerfinu. Menn verða að hafa þetta í huga. Þetta er grunntónninn. Mér finnst því mjög mikilvægt að menn átti sig á því að ekki er hægt að ganga til enda eða alla leið varðandi það að afnema allar tekjutengingar því að þá er engin jöfnun í kerfinu. Ef þeir ríku eiga að fá það sama og þeir sem minna hafa milli handanna þá er engin tekjujöfnun í kerfinu. Þá eru allir að fá jafnt. Það er ekki til bóta. Það er ekki það kerfi sem við viljum sjá. Það er ekki það kerfi sem Norðurlöndin eru með. Það er ekki jöfnunarkerfi. Þetta verða menn að hafa í huga.

Hér var aðeins komið inn á reglugerðina sem ég skrifaði undir í dag varðandi ofgreiddar og vangreiddar bætur og þá aðallega hvernig eigi að innheimta ofgreiddar bætur. Hv. þm. Jón Gunnarsson gerði sérstaklega að umtalsefni lágmarksframfærsluþörfina, þ.e. upphæðina 88.873 kr. eða tæplega 89 þús. kr. En það kemur fram í reglugerðinni að þegar ofgreiddar bætur eru innheimtar — og þær ber að innheimta samkvæmt lögum — þá verður að gera það þannig að heildartekjur einstaklings mega ekki nema lægri fjárhæð en nemur lágmarksframfærsluþörf að mati félagsmálaráðuneytisins. Þetta er leiðbeinandi upphæð sem félagsmálaráðuneytið setur fram fyrir sveitarfélögin til að taka mið af. Lífeyrisþegar sem hafa tekjur — þeir geta haft ýmsar tekjur — heildartekjurnar mega ekki fara undir þessa tölu. Þá má ekki innheimta ofgreiddar bætur því talið er að viðkomandi eigi að hafa þetta milli handanna á mánuði. Mjög mikilvægt er að menn átti sig á þessu. Ég tel líka mjög mikilvægt að draga fram að algengasta ástæðan fyrir ofgreiddum bótum eru fjármagnstekjur sem ellilífeyrisþeginn — í því tilviki — fær. Þetta eru fjármagnstekjur, tekjur af fjármagni sem viðkomandi á og fær og þær valda því að hann fær bætur sem hann á ekki rétt á. Þetta sést ekki í staðgreiðsluskránni þannig að þetta eru upplýsingar sem koma eftir á. Viðkomandi lífeyrisþegi á að fylgjast með þessu og hann á að gefa upplýsingar um fjármagnstekjur. En það er ekki alltaf gert. Þetta er algengasta ástæða þess að Tryggingastofnun ríkisins lendir í því að ofgreiða bætur sem þarf þá síðar að innheimta.

Virðulegur forseti. Ég tel að umræðan hafi verið góð og uppbyggileg. Ég hef heyrt það líka á stjórnarandstöðunni að þeir sem í henni eru telja að margt mjög gott sé í þessu máli. Ég tek undir það. Ég vona að heilbrigðis- og trygginganefnd sem mun fjalla um þetta mál takist að klára það fyrir okkur hratt og örugglega vegna þess að fjölmörg atriði taka gildi frá og með næstu áramótum. Þó að önnur atriði taki gildi seinna taka fjölmörg atriði gildi frá næstu áramótum. Þess vegna er rétt að klára málið hér á þessu haustþingi.