133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:52]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þingmaður er að æsa sig svona yfir þessu. Ég tel að bæði þessi atriði séu mjög mikilvæg fyrir eldri borgara, bæði þjónustan, hvernig staðið er að henni, hvernig byggt er upp, út frá hvaða hugmyndafræði, á hvaða hraða, og lífeyrishlutinn og kjarabæturnar. Hvað á að leggja áherslu á, hvað á vera fyrst, hvað svo o.s.frv. Menn náðu samkomulagi og skrifuðu undir. Við náðum samkomulagi og það er aðalatriðið. Menn náðu samkomulagi um þá forgangsröð sem þeir vildu. Það er algjörlega ljóst.

Það er verið að hækka vasapeningana, samkvæmt frumvarpinu og minnka tekjutengingar mjög verulega. En ég vil draga fram að það er ekki hægt að ganga alla leið af því að það verður að vera tekjujöfnun í kerfinu. Það er alltaf spurning hvar tekjujöfnunin á að liggja, hve langt á að ganga í tekjutengingum? Við höfum verið að minnka tekjutengingarnar. Það búið að gera það áður og enn mun dregið úr þeim með þessu frumvarpi.

Það er líka verið að fara svolítið frá þeirri hugsun að líta á fólk sem hluta af fjölskyldueiningu. Það er svolítið umhugsunarvert en það er bara meira upp á pallborðið í dag en verið hefur. Áður fyrr var litið meira á fjölskylduna, þ.e. ef makinn hafði miklar tekjur voru bætur hins aðilans í fjölskyldunni skertar. Nú erum við að víkja frá áhrifum maka á lífeyrinn. Við erum farin að líta meira á ellilífeyrisþega og öryrkja sem sjálfstæða einstaklinga og að tekjur maka þeirra hafi minni áhrif en áður.