133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[19:39]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég valdi það að fara í stutt andsvar í stað þess að fara í ræðu vegna þess að mig langar bara að beina athygli hæstv. ráðherra að þingsályktunartillögu sem Össur Skarphéðinsson og sá sem hér stendur og fleiri lögðum fram á síðasta þingi, um fiskverndarsvæði við Ísland. Sú þingsályktunartillaga gekk út á það að Alþingi ályktaði að fela sjávarútvegsráðherra að setja á stofn net fiskverndarsvæða við Ísland í þeim tilgangi að efla fullnýttar og ofnýttar nytjategundir og til að vernda mikilvæg búsvæði. Á þeim yrðu veiðar bannaðar alfarið, eins og sagt var í tillögunni til þingsályktunar.

Eins og 2. gr. frumvarpsins til laganna sem hér er til umræðu hljómar sýnist mér hún veita hæstv. ráðherra akkúrat þá heimild sem við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar á þinginu í fyrra töluðum um að hann þyrfti að hafa. Í raun geti ráðherra bannað alfarið veiðar á ákveðnum svæðum til skemmri eða lengri tíma, bannað þar öll veiðarfæri, og það sé bæði til að varðveita viðkvæm hafsvæði og til þess að stuðla að fiskvernd.

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þá ekki að með samþykkt þessa frumvarps, eins og það liggur hér fyrir hvað þetta atriði varðar, hafi hann í höndunum þau tæki og þær heimildir sem þarf til að skilgreina og ákveða að ákveðin svæði geti verið fiskverndarsvæði eða friðunarsvæði bæði fyrir fisk og búsvæði. Við flutningsmenn þingsályktunartillögunnar töldum að það væri nauðsynlegt að vernda fisk og viðkvæm búsvæði, ekki bara með einhverjum lögum um skyndilokanir og slíkt heldur þyrfti ráðherra að hafa svona tæki í höndunum sem gæti lokað svæðum til lengri tíma. Þess vegna spyr ég ráðherra: Hefur hann ekki slíkt tæki nú?