133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[19:41]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti svarað þessari spurningu játandi. Þó að þetta sé ekki margort frumvarp í sjálfu sér, ekki mörg orð í þessu frumvarpi, er þar verið að taka á og veita víðfeðmari heimildir til að vernda svæði, ekki bara með tilliti til ástands fisks, hvort um er að ræða smáfisk eða hrygningarfisk eða eitthvað þess háttar, heldur er gengið lengra með því að tala um varðveislu viðkvæmra hafsvæða.

Ég held að við endurspeglum á margan hátt umræðu sem bæði fer fram í þjóðfélaginu, innan sjávarútvegsins og á alþjóðavettvangi, vegna þess að hérna er verið að opna á heimildir sem fela það í sér að sjávarútvegsráðherra geti á grundvelli þessara laga t.d. bannað veiðar, ekki á grundvelli þess hvort um sé að ræða stöðu fiskstofna á þessu svæði heldur vegna þess að menn horfa til hafsvæðisins sjálfs, botnsins o.s.frv. Við höfum t.d. tekið ákvörðun um það að banna veiðar og búa til algjört friðunarsvæði í kringum tiltekin kórallasvæði við landið. Það er ljóst mál að við þurfum að styrkja þennan lagagrundvöll frekar. Ég geri ráð fyrir því að umræðan verði miklu meira á þessum nótum í framtíðinni innan sjávarútvegsins. Mér sýnist að umræðan í sjávarútveginum núna sé miklu frekar að þróast inn á þær brautir að menn velta fyrir sér því sem ég hef stundum kallað sambúð veiðarfæranna. Við heyrum það á umræðunni núna síðustu daga, t.d. vegna umdeilds svæðis í Kolluál við Snæfellsnes. Ég verð mjög var við það í mínu starfi að það eru sífellt að koma til mín menn sem hafa miklar skoðanir á því hvort það eigi að opna svæði eða loka svæðum. Þetta hygg ég að verði umræða framtíðarinnar mjög innan sjávarútvegsins. Mjög margt sem við höfum tekist á um hafa menn komist að einhverri niðurstöðu um, með góðu eða illu, ósáttir eða sáttir. Ég held hins vegar að umræðan verði miklu frekar á þessum nótum í framtíðinni þar sem sjávarútvegurinn sjálfur verður að taka með virkum hætti þátt í þeirri umræðu og axla á henni (Forseti hringir.) heilmikla ábyrgð.