133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[20:04]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér fer fram nokkuð áhugaverð umræða. Ég ætla aðallega að fjalla um efni 2. gr. og greinargerðar með henni, þ.e. ákvæði um sérstök friðunarsvæði þar sem öll eða tiltekin veiðarfæri yrðu bönnuð og viðkvæmt hafsvæði varðveitt. Ég hlustaði á hluta af ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar áðan. Hann velti upp ýmsum flötum á þessu máli varðandi viðkvæm hafsvæði, m.a. tilliti til botngerðar og fiskverndar.

Á undanförnum árum eða áratugum, leyfi ég mér að segja, höfum við skipt landhelginni niður með ýmsum hætti. Við Íslendingar byrjuðum raunar aðgerðir okkar með því að banna togveiðar innan fjarða og flóa. Það var m.a. hluti baráttu okkar fyrir yfirráðum yfir fiskimiðunum þannig að erlendar fiskveiðiþjóðir sem hér stunduðu veiðar hefðu ekki ótakmarkað frelsi til veiða nánast upp í landsteina, eins og var fyrir mörgum áratugum.

Þetta hefur síðan þróast eins og sagan greinir, með útfærslu landhelginnar í áföngum til þess að við náðum því marki að færa landhelgina út í 200 mílur, með langmest af landgrunninu innan þeirra marka, þótt um það megi deila varðandi Reykjaneshrygg og jafnvel Kolbeinseyjarhrygg til norðurs, og síðan til suðausturs í átt að Rockall. En meginhluti fiskimiða okkar er innan 200 mílna lögsögu okkar. En við ættum sjálfsagt rétt, samkvæmt alþjóðalögum, til að teygja okkur lengra ef við færðum fyrir því efnisleg og góð rök.

Oft er talað um að botnvarpan valdi miklum skaða. Það er með þá umræðu eins og svo marga aðra umræðu að þar er ekki um algildan sannleik að ræða. Botnvarpan veldur skaða á ákveðnum svæðum þar sem gróður hefur verið mikill, kórall og annar botnlægur gróður sem hefur fengið að þróast óheftur í áratugi. En með nútímaveiðitækni hafa skip sótt á þau mið, á hóla, hæðir og tinda, eins og hægt er að orða það, á mið sem áður voru lítt sótt til fiskveiða með botnvörpu. En í áratuganna rás hefur botnvarpan breytt veiðisvæðum og breytt botngerð viðkomandi veiðisvæða.

Sums staðar má horfa til svæða sem hafa verið nýtt í áratugi, sennilega hátt í öld, með botnvörpu. Þau hafa haldið fiskisældinni en önnur ekki. Það fer eftir tegundum á þeim búsvæðum sem veitt er á og þetta fer auðvitað fyrst og fremst eftir náttúrufari ofar í sjónum, straumum og landslagi, þeim meginstraumum sem ráða því að fiskgengd er meiri á einu svæði en öðrum. En þar spila náttúrlega mest inn í skörp hitaskil sjávar, þar sem kaldir og heitir hafstraumar mætast. Þar verður einna gróðurmesta lífríkið við Ísland. Þar halda hvalirnir sig í mestum mæli. Þar heldur loðnan sig, sem lifir á ætinu og svifinu. Þar halda fiskarnir sig auðvitað, sem lifa á loðnunni í samspili með sjávarspendýrunum.

Þessi straumaskil eru sterk við landið á ákveðnum svæðum, t.d. úti fyrir Vestfjörðum, talsvert suður á Breiðafjörð, fyrir Austfjörðum út að miðlínu til Færeyja, suður í Rósagarð og sunnan við Rósagarð og við Suðausturland. Sama gildir um svæði í köntunum fyrir austan og vestan Eyjar, þaðan vestur í Skerjadýpi og allt að Reykjaneshrygg og síðan norður yfir Reykjaneshrygg og yfir á Melsekk, sem svo er kallaður, sem er kanturinn norðan frá Reykjaneshrygg að Jökultungu. Þá er ég nokkurn veginn kominn hringinn í kringum landið að því er varðar helstu straumasvæði og þau svæði sem fisk er að finna. Ég hef svo sem ekki getið mikið um Norðurlandið en þar ræður fiskgengdinni loðnan, rækjan og mót heitsjávar og kaldsjávar, ýmist nálægt landi eða fjær landi. Það fer eftir árferði.

Sjórinn við Ísland er sem stendur afar heitur. Beitarsvæði ýsunnar, sem var fyrir tíu árum nánast eingöngu við Vesturland, Suðurland og Suðausturland, nær nú norður um öll mið í kringum landið. Þar af leiðandi hefur beitarsvæði ýsunnar stækkað um meira en helming, sennilega þrefaldast ef vel er að gáð. Allir flóar og firðir norðan lands hafa bæst inn á beitarsvæði hennar.

Hvað gerðist, hæstv. forseti? Þessi fiskstofn þrefaldaðist á örfáum árum. Skyldi það hafa verið vegna þess að menn beittu svo miklum friðunaraðgerðum eða takmörkunum? Skyldi það hafa verið vegna þess að fiskifræðingar hafi séð það fyrir? Hvorugt var. Veiðin hafði ekki verið takmörkuð sérstaklega. Landssamband íslenskra útvegsmanna kvartaði meira að segja undan því að smábátarnir veiddu of mikið af ýsu á þessum árum, það væri stórhættulegt veiðiálag.

Hafrannsóknastofnun lagði til að ýsan yrði sett í kvóta og vildi draga úr ýsuveiðinni. Á sama tíma sáu fiskimenn hvern árganginn á fætur öðrum af ungri ýsu vaxa upp. Svæðin sem hún ólst upp á voru ekki bara fyrir vestan land, sunnan og suðaustan eins og áður var, heldur færðust norður með öllum Vestfjörðum til Húnaflóa, til Skagafjarðar, til Eyjafjarðar, á Grímseyjarsund, Skjálfanda og allan hringinn austur fyrir land. Það varð sprenging í ýsustofninum. Ýsustofninn stækkaði það mikið að núna veiðum við jafnmikið magn af ýsu og við veiddum mest áður. Núna veiðum við sennilega svipað magn og á árunum 1954–1956, þegar við komumst hæst í þeirri veiði, ásamt Bretum og öðrum erlendum þjóðum með miklu smærri möskva heldur en við notum í dag, hátt í 120 þús. tonn. Við erum þar stödd núna.

Það vill svo til að á þeim árum var sennilega einnig hlýr sjór hér við land, þ.e. upp úr 1950. Síðan kólnaði sjórinn fyrir norðan land, í kringum 1960 eða upp úr því, 1962–1964. Hér komu svokölluð köld ár eftir 1964 og fram til 1970. Eftir það skiptust á köld og heit ár í sjávarbúskapnum í nokkra áratugi þar til núverandi hitauppsveifla kom.

Þetta er sagan um ýsuna, hæstv. forseti, í grófum dráttum. Ýsustofninn stækkaði og byggðist upp alveg burt séð frá veiðum. Stofninn jókst mest undir veiðiálagi smábátanna á línuna og hefur ekki verið stærri í annan tíma en verið hefur á síðustu árum.

Þorskurinn hefur svarað þessari hitabreytingu og dreifst norður um miðin fyrir Norðurlandi, út á rækjuslóðina og rækjuveiðar dottið niður. Þrátt fyrir að nánast engar rækjuveiðar séu stundaðar í djúpköntunum þá finnst ekki mikið af rækju enda er hún étin af þorski og fleiri fisktegundum. Þannig er samspil náttúrunnar og vil ég nú, þær mínútur sem ég á eftir af ræðutíma mínum, að víkja að botninum.

Hitafar, straumar, ætisframboð og önnur skilyrði sjávarins hafa geysileg áhrif á fiskigengd hér við land. Miklu meiri en þau að botninum hafi verið breytt, þótt ekki hafi öll verk okkar sjómannanna verið góð eftir á að hyggja. Við þurfum ekki að vera stoltir af því að hafa ekki haldið til haga kóral- og kísiltrjám sem eru hærri heldur en sá sem hér stendur. En þannig var botninn á sumum svæðum sem við toguðum eftir stórum karfa. Þar breyttum við botninum.

Það er kannski gagnvart þeirri tegund sem hegðun okkar með botnvörpuna hefur haft hvað mest áhrif, þ.e. á karfastofninn. En við brugðumst við varðandi karfaveiðar fyrir mörgum árum og tókum upp friðunarsvæði í útköntunum þar sem kórallinn hafði verið, t.d. fyrir Vesturlandi, nánast frá Reykjaneshrygg og norður undir Víkurál, þar sem menn friðuðu karfaveiðislóðir. Að sumu leyti var það of seint, menn höfðu þá þegar breytt botnlaginu. Eftir sem áður er karfi á þessum miðum þótt hann sé minni en áður var, minna magn. En vonandi tekst með markvissum aðgerðum að ná upp blettum þar sem byggja má upp karfastofna og viðhalda þeim.

Þá komum við að þorskinum aftur, hæstv. forseti. Því hefur verið haldið fram að botnvarpan breyti verulega botninum svo að fiskur kæmi jafnvel ekki á þá slóð aftur. Það er rangt. Sú fullyrðing stenst ekki. Við getum séð fiskimiðin frá Hala, austurhorn Víkuráls, allan kantinn á milli austur Þverálshornið og alla leið austur í Þverál og þaðan austur á Strandagrunn og Strandagrunnshorn. Á þessar fiskislóðir kemur þorskur árvisst þrátt fyrir að sennilega hafi hvergi verið meira togað og botninum hvergi verið breytt meira. Þar komust skip varla áfram, m.a. fyrir osti, fyrirbæri sem getur orðið á við góðan lóðabelg að stærð. Menn gátu fengið nokkur tonn af osti í hali og nokkur tonn af grjóti þar til viðbótar og ýmislegt fleira. Þessu botnlagi var breytt.

Halinn var illtogandi fyrst þegar byrjað var að toga á honum. En núna þykir hann ákaflega sléttur, er einhver vinsælasta togslóð við Ísland og hefur verið í áratugi. Hann gefur enn þá mjög góðan afla. Það er auðvitað vegna þess að Halinn er nokkuð sérstakur. Þetta er landgrunnsrif sem gengur norður og norðaustur úr kantinum og er á þeim slóðum þar sem austurstraumurinn liggur með kantinum en vesturstraumurinn dýpra. Þarna eru mikil strauma- og hitaskil. Þetta svo mikil ætisslóð að ég held að það sé sama hvaða veiðarfæri menn nota þarna í framtíðinni. Við munum aldrei koma í veg fyrir að Halinn verði fiskislóð meðan fiskur er við Ísland. Fiskurinn mun alltaf leita inn á þær slóðir þar sem frumframleiðsla sjávar er mest, mest svif og mest æti. Þar eru bestu fæðuskilyrðin. Þangað sækir svo hvalurinn til viðbótar og selurinn, ef því er að skipta.

Þá skulum við taka fyrir grunnslóðina, hæstv. forseti. Botninn á grunnslóðinni er verulega ólíkur botninum í útköntunum þar sem hann er að mestu leir, þéttur leir eða móhella. Á grunnslóðinni er hann samsettur úr hrauni, jafnvel steinhryggjum, hörðum botni, sandbreiðum á milli eða stórum sandflákum. Þótt togað sé á þessum sandflákum þá hefur það held ég sáralítil áhrif á botninn. Þessir sandflákar hreyfast meira í stórbrimi en við notkun veiðarfæranna. Ef við erum hins vegar að berja á grjóthryggjum, sem við höfum lítið komið við, þá getum við breytt þeim verulega og haft mikil áhrif á botngerðina.

Sama á við, hygg ég, varðandi snurvoðina á ákveðnum blettum, einkanlega þegar kominn er mikill afl í þau skip sem stunda snurvoðarveiðar. Menn eru jafnvel komnir með litla „rock-hoppera“ undir snurvoðina. Hún er þá alveg að nálgast að vera troll.

Það er að mörgu að hyggja fyrir hæstv. ráðherra að þessu leyti. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Þekkingin á botnlaginu er til meðal fiskimanna og menn hafa örugglega tillögur og hugmyndir. Hæstv. ráðherra hefur örugglega fengið slíkar tillögur á sitt borð um breytingar og aðlögun, um að takmarka nútímatogafl og nútímatækni sem breytt getur grunnslóðinni. Þar þarf að draga línu, við getum sagt sáttaleið, milli þeirra sem stunda snurvoðar- og togveiðar og þeirra sem stunda veiðar með öðrum veiðarfærum. En það þarf örugglega að draga línur yfir flóa og firði til að gefa þeim svæðum frið, þar sem togveiðarfæri fari ekki um.

En það er með grunnslóðina eins og ég sagði áður, að þar eru svæðin ekki öll í stórhættu. Sum svæði eru hættuleg upp á notkun togveiðarfæranna en önnur ekki, vegna botngerðar og aðstæðna. Þetta mætti flokka í meiri mæli en við höfum gert á undanförnum árum. En við skulum ekki gleyma því að við höfum flokkað notkun veiðarfæra í landhelginni í áratugi. Við höfum gert það með lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Við höfum gert það svæðaskipt.

Fyrir mörgum áratugum, sennilega einum 35 árum eða meira, fór um landið sérstök sendinefnd skipstjórnarmanna og útgerðarmanna til að búa til svæðaskiptingu milli veiðarfæra, skipastærða o.s.frv. Af því urðu til lögin sem við höfum að mestu leyti unnið eftir varðandi til dagsins í dag, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, þar sem talað er um Breiðafjarðarsvæðið, Norðurlandssvæðið, Vestfirði o.s.frv. En þar hafa línur verið dregnar og svæði skilgreind ýmist sem togveiðisvæði eða ekki sem togveiðisvæði.

Þessari nefnd tókst að miklu leyti að skapa talsvert mikla sátt á sínum tíma. Þetta var á þeim tíma er síldin hvarf frá okkur og við þurftum öll að fara að gera eitthvað annað, t.d. að veiða með trollum á bátum sem voru ekki ætlaðir sérstaklega til þess. Það var ekki fyrr en við fengum litlu skuttogarana að við vorum almennt búnir til kröftugra togveiða, upp úr 1970 og 1975. En árin frá því að síldin fór 1966 og fram að þeim tíma voru veiðar stundaðar á bátaflota sem hafði verið byggður fyrir síldveiðar en ekki togveiðar.

Þannig er sagan í stórum dráttum. Ég þykist vita að með nútímatækni hafa íslenskir skipstjórnarmenn mjög nákvæma kortlagningu af botninum og botngerðinni hér við land, á hvaða veiðum sem þeir stunda. Það eru tölvur og botnskráningartæki í öllum trillum og togurum í dag.