133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[20:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur að mínu mati verið ansi fróðleg umræða. Ekki get ég neitað því að sérstaklega fannst mér fróðlegt að hlusta á fyrirlestur langreyndasta togveiðimanns á Alþingi, hv. 5. þm. Norðvest., Guðjóns A. Kristjánssonar, sem er eins og allir vita einn reyndasti togaraskipstjóri landsins. Þessi yfirferð hans um áhrif veiðarfæra á lífríkið og hafsbotninn var að mínu mati ákaflega fróðleg.

Ég held að kjarni málsins sé sá sem er reynt að koma á framfæri í þessu frumvarpi, að í raun er verið að bæta inn nýrri vídd. Hingað til hefur það verið þannig, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, að við höfum reynt með veiðarfærastýringu og lokunum og opnunum hafsvæða að stuðla að einhverju sem við höfum kallað hagkvæma nýtingu nytjastofnanna en hér er gengið lengra. Hérna er sett lagastoð undir heimildir til þess að geta varðveitt viðkvæm hafsvæði út frá þeim sjónarmiðum sem hafa komið hérna fram.

Aðalatriði málsins er að mínu mati það að menn eiga ekki að bannfæra einhver tiltekin veiðarfæri. Ég hygg að við getum víðast hvar á Íslandsmiðum komið við veiðum með flestum veiðarfærum en þá þarf auðvitað að reyna að hafa þær reglur þannig að þær skaði hvorki stofnana né hafsvæðið. Það eru mörg dæmi, eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson rakti, um hafsvæði eins og Halann sem búið er að toga á alla síðustu öld meira og minna og á þessari öld og enn þá gefur þetta svæði heilmikið af sér. Þess vegna er að mínu mati vel hægt að koma þessu svona fyrir en þetta er auðvitað alls ekki einfalt mál og um það eru mjög skiptar skoðanir hvernig eigi að draga þessar línur. Þetta verður að mínu mati miklu meira verkefni fram undan en það hefur verið á síðustu árum.

Við sjáum hins vegar að mjög mikið hefur verið gert í því að vernda ýmis hafsvæði, t.d. fyrir togveiðum. Við þurfum ekki annað en að skoða kort sem við sjáum hjá Fiskistofu sem sýnir mjög vel hvernig við höfum lokað mjög stórum hafsvæðum vegna hugmynda okkar um það að búa til griðasvæði gagnvart einstökum veiðarfærum og nú erum við að setja lagastoð undir það að geta líka varðveitt viðkvæm hafsvæði.

Það sem verður lagt til grundvallar, af því að hv. þm. Jón Bjarnason spurði um það sérstaklega, er eitthvert vísindalegt mat og mat sem um leið verður líka kallað eftir frá hagsmunaaðilum, sjómönnum. Sú breyting sem við gerðum á reglugerð sem lokaði veiðum í kringum tiltekin kóralsvæði hérna fyrir sunnan land er mjög gott dæmi um þetta þar sem hagsmunaaðilarnir, sjómennirnir, skipstjórarnir og útgerðarmennirnir, lögðu til að gengið yrði lengra en upphaflega voru tillögur um. Það sýnir það að menn eru tilbúnir til að ganga býsna langt í þessum efnum.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði mig aðeins hér um Kolluálinn og síldarsvæðið þar sem við höfum haft með í umræðunni og ég nefndi reyndar aðeins sjálfur í ræðu minni. Ég vil í þessu sambandi leggja áherslu á eitt. Þetta frumvarp tekur í sjálfu sér ekki á því, þar voru allar heimildir bæði til opnunar og lokunar á grundvelli núgildandi laga. Hérna er tekið á þessum málum með öðrum hætti, hér er verið að vísa til ástands hafsvæðanna, þ.e. botnsins og þess háttar, en ekki til ástandsins á fiskstofnunum.

Forsendan fyrir því að þessi tímabundna breyting var gerð á reglugerðinni var sú að fram komu óskir um að opnað væri á veiði með flottrolli inni í Kolluálnum vegna þess að þar töldu menn að væri að finna stóra og góða síld sem ekki veiddist annars staðar og ekki fengist annars staðar. Þarna væri um að ræða mjög verðmæta síld sem hægt væri að nýta með öðrum hætti en síld annars staðar.

Ég hef verið mjög tregur til þess að opna fyrir flottrollið, ég skal viðurkenna það. Eins og menn muna gerði ég það með umdeildum hætti við loðnuvertíðina síðasta vetur að loka á heilmikil svæði fyrir flottrollsveiðum. Það var gagnrýnt en ég stóð fast á þeirri skoðun minni og ég er sannfærður um að ég hafði á réttu að standa þarna. Þess vegna var ég mjög tregur til þess þegar þessari hugmynd var varpað fram að opna á flottrollsveiðarnar inn í Kolluálinn vegna þess að ég hafði mínar efasemdir og áhyggjur af þessu. Ég taldi hins vegar að það væri þvergirðingsháttur að reyna ekki a.m.k. að gefa mönnum leyfi til að skoða þetta mál. Það var gert þannig að m.a. reyndur skipstjórnarmaður á svæðinu fór með í könnun sem miðaðist að því að athuga áhrifin af því að veiða með flottrolli yfir blánóttina, þegar síldin lyftir sér frá botninum, til þess að athuga hvort hægt væri að stunda þarna veiðar án þess að þær hefðu skaðleg áhrif, í fyrsta lagi á botninn og svo í öðru lagi á annað lífríki eins og botnfiskinn á svæðinu.

Niðurstaðan af þessum athugunum var sú að þetta reyndist mjög hrein veiði. Þarna var um að ræða mjög stóra og góða síld, miklu stærri og betri en menn veiddu annars staðar. Það var ljóst mál að það var ekki hægt að ná þessari síld með nót, það lá alveg fyrir, hún stóð svo djúpt að nótaskipin náðu ekki þessari síld. Þess vegna var að mínu mati ekki óeðlilegt að opna á þessar veiðar, tímabundið, líka með því að tryggja það að þessi veiði færi eingöngu fram á nóttunni, þegar síldin lyftir sér frá botninum, og undir mjög hörðu og ströngu eftirliti. Þarna eru ein 5–6 skip á veiðum eftir því sem ég best veit og um borð eru tveir eftirlitsmenn. Þarna er fylgst mjög nákvæmlega með.

Auðvitað orkar þetta tvímælis og auðvitað er sjálfsagt af minni hálfu að fara núna yfir þær ábendingar sem hafa komið fram. Það er ekki rétt að þetta hafi verið gert algjörlega án þess að ræða við menn heima fyrir, ég ræddi við ýmsa skipstjórnarmenn um þessi mál og tók ákvörðun mína á þessum efnislega grundvelli. Ég skal hins vegar viðurkenna það að þegar fram koma athugasemdir ber mér vitaskuld að fara yfir þau mál og það hyggst ég gera á næstu dögum. Hér er um að ræða efnislegar athugasemdir sem væri rangt af mér að útiloka fyrir fram að hlusta nokkuð á.

Þetta voru rökin á sínum tíma þegar ég tók þessa ákvörðun í ljósi þess að þessi tilraunaveiði fór fram. Það var opnað, eins og oft er gert, til þess að athuga inn í þessi hólf hvort hægt væri að stunda veiðarnar án þess að það leiddi til einhverrar rányrkju. Það kom fram að ekki var um að ræða meðafla, það kom fram að síldin lyftir sér eins og við vitum að hún gerir auðvitað á nóttunni og þess vegna var hægt að koma við þessari flottrollsveiði. Þarna var um að ræða stærri og betri síld en annars staðar veiddist, verðmætari síld af þeim ástæðum, og með því að hafa þarna hart og virkt eftirlit taldi ég að hægt að koma við þessum veiðum án þess að það skaðaði aðra hagsmuni á svæðinu.

Nú hafa hins vegar komið fram sjónarmið, bæði útvegsmannafélags á Snæfellsnesi og líka smábátafélagsins þar, þar sem kallað er eftir því að ráðuneytið fari betur yfir þessi mál. Vitaskuld verður það gert. Það er verið að skoða ýmsa þætti í þessum efnum. Ég segi það vegna þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði mig sérstaklega um þetta tiltekna tilvik.

Hann spurði síðan að lokum um deilistofnana, hvað þeir merki. Það eru auðvitað stofnar eins og menn vita sem ganga á milli lögsaga og verða þá eðli málsins samkvæmt ekki nytjaðir nema með samkomulagi milli þjóða. Við vitum hins vegar að þetta er oft erfitt og stundum takast þessir samningar ekki. Vitaskuld getum við ekki tekið okkur rétt á annarra kostnað. Þegar hér er lögð til tiltekin aðferð er það aðferð sem gildir eingöngu um þann hluta sem við veiðum úr þessum deilistofnum og við getum ekki tekið okkur vald yfir öðrum þjóðum í þessum efnum. Þetta undirstrikar hins vegar mikilvægi þess að við reynum að ná samkomulagi um nýtingu þessara deilistofna almennt.