133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[20:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svör hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem ég setti fram sannfæra mig um það að hann hefur hlaupið dálítið á sig í þessu máli með því að, eins og hann sagði, „verða við óskum“. Ég held að menn séu stundum of fljótir að verða við óskum útgerðarmanna þegar þeir setja þær fram. Það er ósköp eðlilegt að þeir setji þessar óskir fram. Það eru útgerðarmenn sem vilja gjarnan að það gangi vel að veiða og að þeir fái þann fisk sem þeir sækjast helst eftir.

Það hlýtur að vekja svolitla umhugsun að menn skuli ekki ná þessari síld nema inni á þessu svæði, þessari stóru síld. Það hlýtur að vera umhugsunarefni að þannig skuli haga til. Ein ferð með flottroll þar sem tilgangurinn yfirlýsti var að gá að því hvort hægt væri að fara í þessar veiðar segir manni bara það að sá skipstjóri sem fer í þá ferð í þeim tilgangi að reyna að fá leyfi til að vera þarna við veiðar hlýtur að vanda sig. Og það hefur hann örugglega gert.

Það er líka spurningin hvort hæstv. ráðherra hefur velt því fyrir sér hvort það hafi yfirleitt verið þörf á því að gera þetta. Nú liggur fyrir að mikið er óselt af síld sem var veidd í fyrra. Það er farið að flytja þessa síld inn til að bræða hana. Auðvitað þurfa menn að velta því líka fyrir sér hvort veiðarnar í flottrollið hafi haft áhrif á samsetningu aflans.