133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:32]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta frumvarp er hér komið öðru sinni og var vel tekið, held ég að megi segja, í fyrra skiptið sem það kom inn á þingið fyrir líklega ári.

Hæstv. forsætisráðherra tilgreindi nú, eins og sá síðasti gerði, að þetta frumvarp snerti ekki þau sérlög sem gilda um gjaldtöku fyrir upplýsingar á opinberum skrám, m.a. frá Fasteignamati ríkisins, Landmælingum Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra. Svo vill til að eftir að mælt var fyrir þessu frumvarpi samþykkti Alþingi í fyrra lög um eitt þessara fyrirtækja, Landmælingar Íslands, þar sem tiltekið var að aðgangur að upplýsingum sem þaðan bærust væri þrengri og meiri gjaldtaka en hér er gert ráð fyrir.

Ég tók eftir að núverandi hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri í verkahring viðkomandi ráðuneyta að fara yfir reglur þær og lög sem giltu um þessar þrjár stofnanir og leggja til breytingar sem samrýmast stefnumótun í þessu frumvarpi. Og ég vil ósköp einfaldlega spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi beint því til þeirra ráðherra sem þetta mál kemur helst við að gera það.