133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:52]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum hér, frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, teljum við í Frjálslynda flokknum mjög jákvætt mál.

Ég ætla ekki að hafa langa tölu um efni frumvarpsins en því má bæta við að sumt af því sem flutt var fyrr í umræðunni er nánast nákvæmlega það sama og flutt var fyrir ári, m.a. ræða frumflytjanda, hæstv. forsætisráðherra, og þeir sem skrifa upp ræðuna geta þá sparað sér að eyða mikilli vinnu í það því að þetta virðist vera sama ræða og fráfarandi forsætisráðherra flutti þá, hæstv. forsætisráðherra flutti nánast sömu ræðu og Halldór Ásgrímsson gerði þá. Var kannski ekki við að búast miklum breytingum á ræðunni því að þetta er sama málið, en samt sem áður hefur eitt og annað breyst í þessu umhverfi, stofnanaumhverfi, t.d. má nefna að til stendur að stofna Matvælarannsóknir hf. um næstu áramót. Væri fróðlegt að fá að vita hjá hæstv. forsætisráðherra hvort þetta frumvarp hafi að einhverju leyti tekið mið af því breytta umhverfi sem er að verða í þessum geira. Og af því að þetta frumvarp miðar að framþróun og því að búa til lagaumgjörð utan um nýtt upplýsingasamfélag sem er að myndast, finnst mér að við ættum að hafa það að leiðarljósi í vinnunni við lagagerðina að hafa sem mest opið þannig að sem allra mestar upplýsingar séu opnar sem flestum í því augnamiði að endurnot af þeim geti nýst til frekari verðmætasköpunar í samfélaginu. Í heild er þetta mjög jákvætt mál sem ber að líta mjög jákvæðum augum og greiða leið þess í gegnum þingið.

Fleiri spurningar vakna við þetta frumvarp en sú sem ég bar fram, hvort tillit hafi verið tekið til breyttra hátta hvað varðar rannsóknastofnanir í landinu. Það þarf líka að velta fyrir sér hvort þetta hafi að einhverju leyti áhrif á sértekjustofnana. Það skiptir verulega miklu máli. Ég var á fundi í umhverfisnefnd þingsins og þar ræddu menn um að verið væri að gera auknar kröfur til ýmissa rannsóknastofnana og fræðistofnana um að afla sér meiri sértekna. Þegar gerðar eru slíkar kröfur um auknar sértekjur verða menn líka að velta fyrir sér hvort lagasetning sem þessi skerðir möguleikana til að afla þeirra tekna sem ætlast er til af stofnununum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta ágæta frumvarp og læt máli mínu lokið.