133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til að segja hérna fáein orð um þetta mál. Það er kannski mest vegna þess að ég vil vekja athygli allsherjarnefndarmanna á því að það er ekkert endilega í þeim farvegi að því muni ljúka eins og hér er gert ráð fyrir. Við ræddum hér fyrir fáeinum dögum frumvarp um Nýsköpunarmiðstöðina. Í þeirri umræðu kom fram að skoðanir eru mjög skiptar í stjórnarflokkunum um það hvort það mál eigi að ganga í gegn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í þeirri umræðu, báðir — þeir töluðu tveir, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur Blöndal og Guðjón Guðmundsson — voru alfarið á móti málinu.

Ég er þess vegna ekkert hissa á því þótt hæstv. forsætisráðherra hafi skort svolítið sannfæringu þegar hann mælti fyrir þessu máli vegna þess að um það urðu mikil átök hér í fyrravetur. Þetta er partur af því. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki enn þá sannfærður. Ég er enn þá mjög á þeirri skoðun að rétta leiðin að þessum hlutum hafi ekki verið valin. Ég trúi því sem stendur hér og hæstv. forsætisráðherra fór yfir í ræðu sinni, það stendur hér fremst í athugasemdum að Vísinda- og tækniráð, sem er víst ekki búið að vera til nema frá 2003, hafi í raun og veru skilað góðum árangri. Mér finnst tekin veruleg áhætta með því að blanda verkefnum inn í verkefnaskrá þessa Vísinda- og tækniráðs sem slíkar deilur eru um að það muni ganga upp eins og raun ber vitni. Mér finnst rökstuðningurinn fyrir því að byggðamálin eigi heima þarna inni ákaflega veikur.

Líka vísa ég til þess sem ég sagði áðan um þá ósamstöðu sem er um málið í stjórnarflokkunum og þá gagnrýni sem uppi var, sérstaklega af hálfu sjálfstæðismanna í fyrravetur og er enn, og vísa ég til þess sem ég sagði áðan um það að þá þurfi að fylgjast vel með því hvernig málið gengur fram í iðnaðarnefnd líka. Hér er ekki hægt að sjá fyrir hvort niðurstaðan verður eins og menn stefna að.

Ég held að best væri að endurskrifa þetta mál um Nýsköpunarmiðstöðina, færa það til síns fyrra horfs, þ.e. að sameina þær stofnanir sem þar var gert ráð fyrir að sameina og taka ekki byggðamálin með. Mér finnst vera verulega mikil áhætta tekin með því. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvort þeir aðilar sem munu veita umsagnir um þessi mál núna hafa breytt um skoðun því að þeir voru nánast á einu máli í fyrravetur um að þetta væri ekki skynsamleg leið.

Þær nefndir sem um þessi mál munu fjalla, allsherjarnefnd og þá menntamálanefnd líka og svo iðnaðarnefnd, þurfa að hafa samráð um þau mál öll sem þarna hanga saman til þess að skoða hvort ekki þurfi að fara fram heildarendurskoðun á þessum málum. Ég verð að segja eins og er að ég hvet hæstv. forsætisráðherra til þess að beita sér fyrir betra samkomulagi um þessi mál en hér liggur fyrir. Það er alveg auðséð að þetta hefur gengið fram með einhvers konar pólitískum hrossakaupum og hefur ekki á bak við sig sátt um niðurstöðuna. Það er aldrei gott og það er miklu hætt til ef það kemur til með að koma niður á tækni og vísindum og því sem farið er að gerast á þessu sviði.

Ég endurtek að ég vara við því að þeim ágæta árangri sem Vísinda- og tækniráð hefur náð sé í raun og veru teflt í tvísýnu með því að koma þessari starfsemi inn í einhvers konar pólitískar þrætur og erfiðleika sem slíku geta fylgt.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra. Ég vildi vekja athygli á þeim parti málsins sem við sem sitjum í iðnaðarnefnd höfum á okkar snærum og leggja til að nefndirnar hafi gott samráð um framhald málsins.