133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:12]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, við undirbúning á þessu frumvarpi í vor og þeim ákvæðum sem eru óbreytt var haft samráð við umhverfisráðuneytið og þáverandi umhverfisráðherra um þau atriði sem snerta sérstaklega Náttúrufræðistofnun Íslands. Ég get því sagt: Já, það var haft samráð við umhverfisráðuneytið út af akkúrat þessum þáttum enda er mikilvægt að Náttúrufræðistofnunin hafi óbeina aðild að náttúruminjasafninu með þann faglega vísindagrunn og rannsóknargrunn sem Náttúrufræðistofnun Íslands byggir á. Enda ítreka ég það sem ég sagði áðan: Ég tel mikilvægt sem menntamálaráðherra að höfuðsafn, eitt höfuðsafnanna eða öll höfuðsöfnin hafi ákveðinni rannsóknarskyldu að gegna, en ekki í formi grunnrannsókna. Söfnin hafa á alþjóðavísu rannsóknarskyldu og rannsóknarhlutverk á allt öðrum grundvelli en aðrar stofnanir, vísindastofnanir eins og Náttúrufræðistofnun Íslands, Veðurstofan o.s.frv.

Engu að síður er mikilvægt þegar við setjum á laggirnar stofnun sem þessa að við nýtum okkur reynslu Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þess vegna er þessi tenging inn í 3. gr. nokkuð sérstök — hún er nokkuð sérstök — en við teljum engu að síður mikilvægt að gera þetta svona. Og það var haft samráð við umhverfisráðuneytið.