133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:17]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er í eðli sínu um gott mál að ræða. Menn eru sammála um að stofna Náttúruminjasafn sem annist sín mikilvægu mál með metnaði og af dugnaði og bæti úr þeirri vanrækslu sem við Íslendingar höfum sýnt þessu mikilvæga safnamáli.

Frá umræðu sem fór fram um sama frumvarp í fyrra get ég aðeins fundið að frumvarpið hafi breyst í einu atriði og í engu öðru, þótt hér hafi farið fram umræður og athugasemdir borist í umsögnum.

Fyrst verður fyrir að ekki var tekið mark á þeirri ábendingu frá í fyrra að þetta þingmál ætti betur heima í formi þingsályktunartillögu en sem frumvarp. Efni þess er þannig að þingsályktunartillaga hefði átt að duga og hefði nægt til að skapa samstöðu um að málið yrði tekið upp og skapa samstöðu um að hæstv. menntamálaráðherra fengi það fé sem hún er með núna á óskiptum safnlið sem mér sýnast miklar kröfur standa í. Það hefði nægt til að koma af stað þeirri stefnumörkun sem vissulega er þörf á.

Fyrstu viðbrögð mín við því að fá þetta frumvarp til laga aftur inn í þingið á þessum vetri eru hugleiðingar um hvort samþykkt þess gæti hugsanlega orðið til að spilla þeirri stefnumótunarvinnu sem ætti að vera löngu búin eða að minnsta kosti farin langt af stað, vegna þess að búið sé að taka ýmsar þær ákvarðanir sem til greina kæmi að hugleiða í þeim hópi sem færi í þessa vinnu. Ég er ekki viss um að sú leið menntamálaráðherra sé endilega rétt að búa fyrst til forstöðumanninn og láta hann síðan vera leiðtoga þessarar vinnu. Ég get vel ímyndað mér hitt, að það sé betra að það geri hópur manna og síðan sé forstöðumaðurinn ráðinn á eftir í það hlutverk sem honum er ætlað í því líkani sem búið er til í kringum safnið.

Það eykur ekki beinlínis sannfæringu mína eða annarra um að ráðherra sé áhugamaður um málið að engir peningar fylgja þessu á fjárlögum. Í raun gerist ekkert við samþykkt þessa frumvarps nema það að menntamálaráðherra ræður forstöðumann. Það er ekkert annað sem gerist í framhaldi af frumvarpinu. Hér er því verið að búa til lög um eina mannsráðningu.

Hæstv. menntamálaráðherra er svo stórhuga, sem menn þekkja, að kalla þessi lög rammalöggjöf. Ég hef ekki verið lengi á þinginu og ætla ekki að hæla mér af því að vera sérfræðingur um þingleg hugtök. En minn skilningur á rammalöggjöf er sá að það sé lagabálkur sem fjallar um ákveðin svið í samfélaginu, um orkumál, um skólamál, grunnskólann, um safnamál og síðan sé fyllt út í slíkan lagabálk með öðrum lögum, með sérlögum um stofnanir, einstaka málefni og þá hluti sem menn vilja setja um lög eða með reglugerðum og sérstökum reglum ef um það er að ræða.

Ég hef aldrei heyrt það áður að lög um tiltekna stofnun, um tiltekið fyrirbæri líkt og hér er á ferð, Náttúruminjasafn Íslands, sé kallað rammalög eða rammalöggjöf. Mig langar til að heyra meira, forseti, um þessa hugtakanotkun í menntamálaráðuneytinu. Hvort von sé á fleiri rammalöggjöfum um tiltekna einstaka hluti. Hér er auðvitað ekki um neina rammalöggjöf að ræða heldur frumvarp til laga um eitt tiltekið fyrirbæri. Þau lög sem sett eru um eitt tiltekið fyrirbæri þurfa að halda utan um það fyrirbæri og vera eins nákvæm og ástæða er til. Það er ekki hægt að varpa frá sér ábyrgð á frumvarpi með því að kalla það rammalöggjöf þegar það er það ekki.

Ég sagði að fátt hefði breyst í þessu frumvarpi. Þó hefur eitt breyst. Það eru kröfurnar til forstöðumannsins sem í fyrra frumvarpi voru þær að hann ætti annaðhvort að vera með eitthvert háskólapróf eða hafa góða þekkingu á verkefnum safnsins. Þetta var gagnrýnt, bæði við 1. umr. eins og hæstv. menntamálaráðherra sagði réttilega og í umsögnum. Því hefur verið breytt og ég fagna því út af fyrir sig. En ekkert annað mark hefur verið tekið á athugasemdum í 1. umr. á síðasta þingi og úr umsögnunum.

Það hefur ekki einu sinni verið leiðrétt íslenskuvilla í 2. mgr. 3. gr., kjánaleg íslenskuvilla, þótt vakin hafi verið sérstök athygli á henni í umræðunum. Það sýnir kannski að þjónar hæstv. menntamálaráðherra hafa ekki einu sinni sinnt því að fara í gegnum þær ræður sem fluttar voru við 1. umr. á 132. þingi. Þegar það gerist þá verður að flytja þær ræður aftur. Það tefur fyrir nefndarstarfinu, því miður, þegar menntamálaráðherra eða starfsmenn hennar skoða ekki það sem um málið hefur verið sagt.

Ekkert hefur heldur gerst í málefnum safnsins síðan þetta mál var rætt við 1. umr. í fyrra. Sumarið hefur ekki verið nýtt til að bæta frumvarpið eða komast að skýrum niðurstöðum til að móta stefnu eða laga frumvarpið. Það eina sem hefur gerst í málefnum safnsins er bruninn mikli sem varð um daginn, sem vekur svo athygli á því, án þess að ég ætli nú að fara að kenna menntamálaráðherra hæstv. um brunann, að geymsluhúsnæði og geymslumál safna eru heldur bágborin, þannig að við notum um það kurteisleg orð.

Það er rétt að spyrja menntamálaráðherra að því sem ég gerði í 1. umr. í fyrra og fékk ekki svar við, hvort hafin sé úttekt sem hæstv. ráðherra nefndi í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur 1. febrúar í vor, sem var svona, með leyfi forseta:

„Þá er brýnt að sem fyrst verði hugað að geymsluhúsnæði safnsins,“ — þetta er svolítið neyðarlegt þegar maður les þetta núna eftir brunann — „líkt og gagnvart öðrum söfnum, og hef ég því ákveðið, frú forseti, að láta kanna sérstaklega geymsluþörf safna á vegum ríkisins til framtíðar litið.“

Spurningin er: Hvað líður úttekt á geymsluþörf safna?

Forseti. Eitthvað það fróðlegasta í þessu plaggi hér, frumvarpinu og fylgigögnum þess, er umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem rakin var hér áðan. Þeir á fjárlagaskrifstofunni rekja í umsögninni að þeir hafi sjálfir í umsögn með safnalagafrumvarpinu á sínum tíma sagt að kostnaður við stofnun Náttúruminjasafnsins yrði töluverður. Þeir kvarta síðan yfir því, þó kurteisir séu, að samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu liggi, með leyfi forseta: „… engar áætlanir fyrir um uppbyggingu og rekstur Náttúruminjasafnsins.“ Svona var þetta á 132. þingi og svona er þetta enn.

Mér þykir það, sem kannski var afsakanlegt í fyrsta sinn sem frumvarpið var sett fram, bágborið að koma aftur með þetta inn í þingið án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til að áætla þetta. Þeir á fjárlagaskrifstofunni reyna að meta kostnað í byrjun. Þeir segja að það séu litlar forsendur til að meta kostnað við áætlanagerð forstöðumannsins.

Það er rétt að spyrja menntamálaráðherra, sem hefur lýst því yfir, og má hrósa fyrir það, að notað verði fé af safnliðum til þess: Hversu mikið fé er annars vegar talið að fari í laun forstöðumanns? Hver er hins vegar metinn kostnaður við áætlanagerð forstöðumannsins fyrsta árið? Starfsmenn fjárlagaskrifstofunnar segja engar forsendur, forseti, til að meta árlegan rekstrarkostnað þessa safns þar sem ekki liggi fyrir neinar áætlanir um hvernig á að reka það. Þeir giska á tugi eða hundruð milljóna króna sem auðvitað er eitt af því sem við ættum að ræða við 1. umr. um stofnun Náttúruminjasafns Íslands.

Lokaorðin í álitinu eru auðvitað líka merkileg og þess virði að þau komi fram. Menn frá fjárlagaskrifstofunni segja, með leyfi forseta:

„Fjármálaráðuneytið gerir í því sambandi ráð fyrir að menntamálaráðuneytið láti útbúa vandaða áætlun um uppbyggingu og rekstur safnsins og geri ráð fyrir kostnaði við starfsemi þess við gerð fjárlaga, líkt og gildir um aðrar stofnanir, innan þess hluta langtímaáætlunar í ríkisfjármálum sem lýtur að menntamálaráðuneytinu.“

Það er augljóst þegar maður les þetta að starfsmenn fjárlagaskrifstofunnar eru með faglegar aðfinnslur í garð menntamálaráðuneytisins fyrir að þetta skuli ekki liggja fyrir nú þegar. Þess vegna væri betra, eins og bent var á í fyrra, að hafa þetta í formi þingsályktunartillögu sem við gætum sameinast um. Síðan færi stefnumótunin fram með þátttöku allra sem að henni vilja koma.

Nokkur orð umfram það sem hér var sagt í fyrra um þennan skipulagsvanda sem við stöndum frammi fyrir, sem er auðvitað ekki á ábyrgð eins eða neins eða sök eins eða neins. Það er hins vegar ábyrgðarfullt verkefni að leysa úr honum. En Náttúruminjasafnið er á vegum menntamálaráðuneytisins meðan Náttúrufræðistofnun, sem á að vera hinn faglegi bakhjarl, er á vegum umhverfisráðuneytisins. Þetta þarf ekki að skapa vanda en getur auðveldlega gert það. Það þarf ekki annað en að forstöðumönnum þeirra stofnana sé ekki nægilega hlýtt hvorum til annars. Það getur skapað alls kyns vanda. Ég verð að segja að á þeim athugasemdum, kurteislegum og vinsamlegum sem við gerðum í 1. umr. á síðasta þingi, sem lýsa sér líka í umsögnunum, hefur ákaflega lítið mark verið tekið. Ekki er reynt að leysa úr þessum vanda með einum eða neinum hætti.

Í 3. gr. er enn þá það orðalag að Náttúrufræðistofnunin skuli, með leyfi forseta, „að verulegu leyti“ annast rannsóknarskyldu þess. Þar er ekkert um það, sem fram kom í máli menntamálaráðherra, að Veðurstofa Íslands eða hin fræga Hafrannsóknastofnun skuli einnig vera bakhjarl Náttúrufræðistofnunar.

Í frumvarpinu eða greinargerðinni er ekki skýrður, þótt það komi vissulega fram í ræðu ráðherra, sá greinarmunur sem á að vera á þeim rannsóknum sem eiga að fara fram, sem Náttúruminjasafnið á að annast sjálft og síðan þeim sem Náttúrufræðistofnun annast. En það hjálpar vissulega til að menntamálaráðherra hafi lýst því að það séu hinar safnlegu rannsóknir, hinar safntæknilegu rannsóknir ef ég má nota það orð, sem safnið sjálft eða starfsmenn þess eiga að annast og grunnrannsóknir og faglegar fræðirannsóknir eiga að vera í annarra höndum.

En það er ekki minnst á Veðurstofuna og Hafrannsóknastofnunina og þær stofnanir fleiri sem um ræðir í þessu frumvarpi eða í greinargerð með því. Þegar maður hlustar á menntamálaráðherra þá hefur maður helst á tilfinningunni að hæstv. ráðherra sé nánast að hugsa í fyrsta sinn eitt og annað í þessum ræðustól í tengslum við Náttúruminjasafn sem hún þó ætlar að stofna.

Í 3. gr. er talað um aðra aðila en það á sér enga skýringu í athugasemdum við frumvarpið. Það er spurning sem við þurfum að velta fyrir okkur hvort ef til vill ætti að breyta skipulaginu og taka þetta safn frá menntamálaráðuneytinu og setja undir umhverfisráðuneytið til þess leysa þennan skipulagsvanda. Mér sýnist að ef frumvarpið breytist ekki muni hann geta orðið hættulegur fyrir safnið og fyrir þær rannsóknir sem að baki standa. Hér er ákaflega margt óljóst.

Þetta þingmál væri að mínu áliti betur komið sem þingsályktunartillaga. Það er auðvitað jákvætt eins og ég sagði í upphafi. Hins vegar bíða mörg úrlausnarefni menntamálanefndar sem yfir þetta fer og hugsanlega umhverfisnefndar einnig. Verði svo að þetta frumvarp verði samþykkt í vor óbreytt eða lítt breytt þá er gríðarleg vinna eftir í menntamálaráðuneytinu sjálfu, þ.e. sú vinna sem við alþingismenn ætlumst til að búið sé að ráðast í þegar frumvörp eru lögð fram, að ég tali ekki um stjórnarfrumvörp sem njóta fjölmennra stofnana til undirbúnings. Áætlunina vantar. Undirbúningi er áfátt. Hugsunin er óskýr.