133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:36]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Markmiðin með frumvarpinu eru skýr, þau eru kristaltær. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa frumvarpið betur ef hann hefur þetta ekki á hreinu.

Í öðru lagi hefur það verið fram til þessa að þegar ráðherrar leggja fram stjórnarfrumvörp, og ég veit ekki betur en það gildi líka um þingmenn varðandi þingmannafrumvörp, að ef þau ná framgangi ætli menn að halda áfram með uppbyggingu þess sem málið snertir. Það er ekkert öðruvísi með þetta mál en önnur þau mál sem ég hef lagt fyrir á hinu háa Alþingi. Ef þetta frumvarp verður að lögum mun uppbyggingu verða haldið áfram á náttúruminjasafni. Ég hef sagt það og tel það skipta mjög miklu máli, ekki síst varðandi uppbyggingu náttúrufræðinnar og raungreinanna innan skólakerfisins. Náttúruminjasafn sem þetta mun stuðla að framgangi náttúrufræðinnar sem slíkrar í samfélaginu, ekki síst innan skólakerfisins. Náttúruminjasafnið mun því gegna margháttuðu og mikilvægu hlutverki. Við þurfum að samþykkja þetta rammalöggjafarfrumvarp til þess að við getum tekið málið áfram og mótað stefnuna enn frekar í samráði við nýjan forstöðumann, starfsmenn og fræðaheiminn sem slíkan.