133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði haldið að einmitt eftir þá sögu sem margir hafa komið inn á hér þá fögnuðu menn umræðu um frekari stefnumörkun og uppbyggingu eða tækifæri til uppbyggingar varðandi náttúruminjasafnið sem ég tel vera merkt framlag til þess að við getum haldið áfram af metnaði. Það liggur alveg ljóst fyrir að þegar við verðum búin að samþykkja þetta frumvarp þá höldum við áfram með málið og þá í samvinnu og samstarfi við þá aðila sem hlut eiga að máli, beint sem óbeint, og m.a. þá aðila sem hv. þingmaður minntist á, hvort sem það eru náttúrufræðingar, umhverfisráðuneytið eða aðrir.

Aðalatriði er að samkvæmt safnalögum eru höfuðsöfnin þrjú og þegar þetta frumvarp verður að lögum er Náttúruminjasafnið á ábyrgð menntamálaráðuneytisins en fram til þessa er það ekki á ábyrgð menntamálaráðuneytisins. Í dag er það lögum samkvæmt á ábyrgð umhverfisráðuneytisins. Ég hefði einmitt haldið að menn mundu fagna því að verið væri að reyna að koma þessum málum í það horf sem mér heyrist að flestir vilji, að byggja hér upp öflugt náttúruminjasafn.

Hv. þingmaður spurði mig áðan m.a. hvort halda ætti áfram á grundvelli þeirrar stefnumörkunar og með því plaggi sem kom fram áðan. Ekki endilega, því það hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á alþjóðavísu í safnamálum einmitt í tengslum við náttúruminjasöfn, vísindasöfn o.s.frv. Það er reynsla sem við eigum að nýta okkur og mun hugsanlega leiða til þess að við sjáum náttúruminjasafnið verða víðtækara en menn sáu 1991 þegar rætt var um samvinnu borgar, háskóla og ríkisvalds.