133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:57]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa tekið undir frómar óskir mínar um að leitað yrði eftir því við Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg hvort þeir fjársterku og metnaðarfullu aðilar væru tilbúnir til þess að koma með í þessi verk. Hæstv. ráðherra og öðrum til upplýsingar vil ég segja það að í þessari bláu bók sem ég hafði hér á borðinu hjá mér áðan var ekki verið að tala um eitthvert gamaldags náttúrugripasafn, sem er svo í hugum margra, heldur um eiginlegt vísinda- og náttúruhús með stjörnuskoðunaraðstöðu og öllu því sem eitt gott náttúrugripa- og vísindasafn má prýða.

Það er alveg ljóst að það verður ekki lengur farið út í að búa til eitthvert sýningarsafn og ekki einu sinni náttúrusýningar hér öðruvísi en beitt sé þeirri nýju tækni, miðlunartækni sem fyrir hendi er. Eins og við sjáum vera að gerast í kringum okkur, t.d. með landnámssýningunni í Aðalstræti eða með endurgerð sýninga í Þjóðminjasafninu, þar er auðvitað á mjög metnaðarfullan hátt verið að beita nýrri sýningartækni.

Ég held að ég geti fullyrt, með fullri virðingu fyrir því sem gerst hefur á undanförnum árum, að það mun ekki standa á náttúrufræðingum eða öðrum þeim sem hafa komið að þessum málum, ég vil segja í 117 ár, að vera tilbúnir til þess að taka við nýjustu tækni og vera opnir fyrir hugmyndum. Ég vil jafnframt skora á ráðherrann að vera opin fyrir þeirri hugmynd að fá Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg til samstarfs við sig um þetta verkefni og reyna að tryggja þá lóð sem enn er á skipulagi í Vatnsmýrinni og bíður eftir þessu húsi.