133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að það verður haft samstarf og samvinna við þá sem geta stuðlað að því að Náttúruminjasafn Íslands verði glæsilegt og vel uppbyggt, það er alveg ljóst. En það hefur margt breyst frá því að fyrrnefnd skýrsla var sett fram, m.a. lögin frá 2001 þar sem getið er um þessi þrjú höfuðsöfn sem við höfum margoft rætt.

Í síðara andsvari mínu langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki rétt, í ljósi þessa frumvarps og hugmyndarinnar varðandi uppbyggingu Náttúruminjasafnsins sem slíks, að breyta 8. gr. í lögum um Náttúrufræðistofnun, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun Íslands getur með leyfi ráðherra gerst aðili að sýningarsöfnum sem rekin eru af öðrum en ríkinu.“

Telur hv. þingmaður ekki rétt í ljósi þess að byggja á upp öflugt höfuðsafn á sviði náttúruminja að allur safnahlutinn frá Náttúrufræðistofnun verði settur inn í Náttúruminjasafnið og þá um leið á ábyrgð Náttúruminjasafnsins í framtíðinni og þar af leiðandi að umræddri 8. gr. verði breytt?