133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:28]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum sammála um þetta, ég og hv. þingmaður, og ég vék að því í ræðu minni og sé ekki annað en að það sé einmitt gert ráð fyrir þessu í frumvarpinu, hinu nána samspili á milli Náttúruminjasafns og vísindastarfseminnar, sem er forsenda. Ég nefndi það einmitt í ræðu minni að safn sem ekki hefur sterk tengsl við vísindasamfélagið er dautt safn og það tel ég vera undirtóninn í þessu frumvarpi.

Ég er líka sammála hv. þingmanni, og ég hélt að ég hefði vikið að því í ræðu minni, að við eigum ekki að tala um safn eins og að þar standi bara geirfuglinn frægi, sem dr. Finnur Guðmundsson keypti á sínum tíma, og nokkrir fuglshamir og selshræ o.s.frv. Við erum að tala um lifandi safn og það er akkúrat það sem hæstv. ráðherra nefndi, að hugmyndir um söfn hafa breyst svo mikið á síðustu árum, ekki síst í ljósi þess að við erum komin með breytta tækni og þar fram eftir götunum. Ég skil þetta frumvarp þannig að forstöðumanninum sé einmitt ætlað að leiða vísindasamfélagið, safnasamfélagið og aðra að þessu borði til að skerpa m.a. á þeirri ágætu skýrslu frá 1991 sem hv. þingmaður blaðar í og auðvitað þarf að fara yfir hana.

En um það hvort ferðamenn þurfi að skálma í gegnum safnið þegar þeir lenda í Keflavík með kerrurnar og tollinn sinn, þá vil ég vekja athygli hv. þingmanns á því að það er ekki víst að ferðamenn sem hingað koma sæki endilega til Íslands til að fara inn á hótel í Reykjavík. Það er einmitt náttúran sem kallar á þá hingað. Og hvað er glæsilegra en að byrja á því að skoða lifandi náttúrufræðisafn í Keflavík áður en farið er út í hina fallegu íslensku náttúru?