133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Vissulega þoli ég og við öll að heyra ýmsar hugmyndir. Þetta er hins vegar í annað sinn sem sú hugmynd kemur fram frá Framsóknarflokknum. Fyrst kom hún fram frá hæstv. umhverfisráðherra. Ráðherrar eru nú ekki alla jafna að fleygja fram hugmyndum heldur eru þeir yfirleitt að íhuga ráðagerðir. Þá stóð málið um Náttúrufræðistofnun af orsökum sem mér eru ókunnar. Núna stendur það um Náttúruminjasafn. Þess vegna er von að ég spyrji: Er þetta hugmynd Framsóknarflokksins? Er þetta tillaga Framsóknarflokksins? Því ég veit ekki betur en hér hafi verið stofnuð sérstök nefnd til að fara yfir það hvað ætti að gera við þessar geymslur á Keflavíkurflugvelli og það húsnæði sem þar er.

En hitt verð ég að segja að nokkur bjartsýni er hjá hv. þingmanni að þessar tvær hæðir Fasteigna ríkisins á Hlemmi þar sem Náttúrufræðistofnun er nú, seljist fyrir hinu nýja náttúruhúsi, sem í hinni skemmri gerð, sem nefnd var hér áðan um kostnað, væri 1,5 milljarðar. Það (Forseti hringir.) ætti þá að selja hvora hæðina um sig á 750 milljónir og gjörðu svo vel.