133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir ræðu sína og þá mikla birtu sem fylgdi ræðunni og framsýnina í þá veru að hv. þingmaður áttar sig á að koma þurfi þessu í gegn til að við getum síðan haldið áfram og tekið stefnumörkunina í samvinnu forstöðumanns, eins og hv. þingmaður talaði um, við safnasamfélagið, rannsóknarsamfélagið, vísindasamfélagið og náttúrufræðisamfélagið.

En ég vil aðeins hnykkja á einu atriði sem hv. þingmaður og fleiri hafa komið inn á. Það er þessi tenging við aðrar vísindastofnanir eða rannsóknastofnanir. Sú tenging í frumvarpinu við Náttúrufræðistofnun Íslands er afar eðlileg að beinlínis skuli vera skírskotað til náins samstarfs milli Náttúruminjasafns og Náttúrufræðistofnunar. Það er m.a. út af núverandi fyrirkomulagi. Það er ekki óeðlilegt að reynt sé að varðveita og tryggja tengslin og samstarfið þarna á milli og reynsluna sem Náttúrufræðistofnun hefur yfir að ráða.

En það er ekki þar með sagt að það sé eina stofnunin sem Náttúruminjasafnið eigi að hafa samskipti við. Þess vegna er mikilvægt að hnykkja á rannsóknarhlutverki Náttúruminjasafnsins alveg eins og Þjóðminjasafnið hefur rannsóknarhlutverk og Listasafn Íslands hefur rannsóknarhlutverk, þá er mikilvægt að Náttúruminjasafnið hafi líka rannsóknarhlutverk sem tengist söfnum og safnastarfsemi. Þá er þýðingarmikið að ekki sé búið að loka á samstarf heldur miklu frekar koma á samstarfi við þær vísindastofnanir sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni, eins og Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun og aðrar stofnanir. Þannig að þetta verði sem víðfeðmasta safn sem um getur, helst á norðurhveli jarðar, varðandi náttúruminjar, umhverfi og vísindastarf og við miðlum þessu síðan til barnanna okkar.