133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:44]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður kom jafnframt inn á staðsetningu. Ég tel það vera síðari tíma mál. Það er fagnaðarefni að menn hafa lýst sig viljuga til að reisa eða hýsa safnið. Ég held að það sýni og beri vott um metnað. Hins vegar er ákveðin nefnd að störfum varðandi þá starfsemi sem hugsanlega kann að verða á varnarsvæðinu svokallaða.

Ég vil geta þess að ég tel mikilvægt að það sé sem best aðgengi, ekki bara ferðamanna að staðnum, heldur að sem flestir skólar og skólabörn hafi sem greiðast aðgengi að Náttúruminjasafninu. Það er alveg ljóst að Náttúruminjasafnið mun verða dýrt og kostnaðarsamt, en það mun örugglega skila sínu til samfélagsins. Það mun ekki kosta undir 1 milljarði eða jafnvel 1,5 miðað við fyrstu kostnaðaráætlun.

Ég vil hins vegar undirstrika að ég tel brýnt að málið nái fram að ganga og tel það við hæfi að við samþykkjum það ekki síðar en á vorþingi 2007, á árinu sem Jónas Hallgrímsson, (Forseti hringir.) skáld, náttúrunnandi og fræðimaður, hefði orðið 200 ára.