133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

niðurlagning úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

258. mál
[19:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um að leggja niður tvær úrskurðarnefndir á sviði siglingamála. Um er að ræða annars vegar úrskurðarnefnd siglingamála sem er skipuð samkvæmt 13. gr. laga um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, og hins vegar farbannsnefnd sem skipuð er samkvæmt 24. gr. laga nr. 47/2003.

Í frumvarpinu er lagt til að ágreiningi sem kann að stofnast vegna stjórnvaldsákvarðana Siglingastofnunar Íslands samkvæmt ofangreindum lögum, megi skjóta til samgönguráðuneytis til úrskurðar. Þetta er í samræmi við stefnu ráðuneytisins að fækka skuli sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Það er ljóst að íslensk stjórnskipan byggir á því að ráðherra, hver á sínu sviði, fari í reynd með æðstu yfirstjórn stjórnsýslunnar. Í 14. gr. stjórnarskrárinnar er mælt svo fyrir að ráðherra beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum.

Þegar komið er á fót sjálfstæðum stjórnsýslunefndum sviptir það ráðherra almennum stjórnunar- og eftirlitsheimildum yfir hlutaðeigandi nefnd. Því er þessi skipan undantekning frá almennum stjórnskipunarreglum og ekki ástæða til að viðhalda henni nema ríkar ástæður séu fyrir hendi. Almennt má segja að meiri festa og samræmi og réttaröryggi sé fyrir hendi þegar saman fara vald og ábyrgð á stjórnarframkvæmdum og miðast þetta frumvarp við að leggja áherslu á það.

Þegar um er að ræða fá mál sem koma fyrir slíkar úrskurðarnefndir liggur það í hlutarins eðli að kostnaður er tiltölulega mikill vegna starfa slíkra nefnda og því eðlilegra að hlutast til um hagkvæmari lausnir þó að það megi ekki ráða för eitt út af fyrir sig. Þess vegna er væntanlega minni kostnaður við það þegar um fá verkefni er að ræða ef sérhæfing ráðuneytisins getur sinnt þessu verkefni. Því er þetta lagafrumvarp liður í almennri stefnu samgönguráðuneytisins að auka skilvirkni í stjórnsýslu, einfalda reglur og draga úr kostnaði. Svo háttar til um störf beggja umræddra úrskurðarnefna að ekki hefur verið skotið til þeirra neinu máli síðastliðin fjögur ár og afar fáum árin þar á undan.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. samgöngunefndar og til 2. umr.