133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:44]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Jóni Bjarnasyni að ég tel að það sé mjög gagnlegt og verði gagnlegt fyrir hv. samgöngunefnd að fara yfir þessi mál eins og hann gat um til að þingmenn átti sig vandlega á þeim skyldum sem verið er að setja á starfsmenn stofnana og fyrirtækja hvað þetta varðar. Siglinga- og hafnavernd er geysilega mikilvæg fyrir okkur til að tryggja sem mest öryggi, bæði í höfnum og um borð í skipum, til að tryggja öruggar siglingar við landið og standa þannig að málum að bæði íslensk og erlend skip sem fara um hafnir hér á landi eigi traustan og greiðan aðgang að öllum höfnum þannig að ekki verði efast um að skip sem afgreidd eru í íslenskum höfnum þurfi að sæta annars konar meðferð í höfnum erlendis vegna þess að hlutirnir séu ekki taldir í lagi hér á landi. Þeir eru í mjög góðu lagi hjá okkur Íslendingum í dag. Þetta frumvarp miðar að því að uppfylla enn frekar þær kröfur sem gerðar eru á hinu Evrópska efnahagssvæði og til þess að það fari ekkert á milli mála að við uppfyllum þær reglur sem settar eru þar. Framkvæmdin hjá íslenskum hafnarstjórnum og útgerðum sem koma að þessum málum hefur verið býsna traust og góð en við þurfum að fikra okkur áfram inn í þennan veruleika og því er þetta frumvarp lagt fram, en ég tek undir með hv. þingmanni að nefndin muna skoða málið.