133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[19:54]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd. Hluti af þessu máli er að áður fyrr komu svo margir aðilar að björgunarmálum ef slys varð á sjó að við töldum að það væri ótækt. Menn töldu eðlilegt að færa stjórn þeirra mála undir eitt og sama þakið, sem er björgunarhúsnæði í Öskjuhlíðinni þar sem nú er vaktstöð siglinga. Þar er og 112 neyðarlínan. Þar er lögregla og séð um öryggismál varðandi flug, siglingar o.s.frv. undir einu og sama þaki.

Ég held að allir séu sammála um að það var full ástæða til að vinna að öryggismálunum út frá þeirri skipan sem er komin á í dag.

Varðandi það sem hv. þm. Jón Bjarnason talaði um í sambandi við bilun á kerfum vegna flutninga á símalínu eða öðru þá er það rétt. Það er ekki ástæða til þess að búa við að slíkt sé viðskiptaleynd. Ég tek einnig undir það með honum að eðlilegt sé að samgöngunefnd fái allar upplýsingar um hvernig boðleiðir eru og hvað er til ráða ef bilanir verða í þessu kerfi.

Fyrst og fremst skulum við þó minnast þess að markmiðið með samruna öryggisþátta á sjó, lofti og landi, var að stytta allar boðleiðir og auka öryggi enn frekar.