133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

siglingavernd.

238. mál
[20:12]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem við erum komin langt út fyrir efnið langar mig aðeins til að minna á upphaf þessa máls, en í lögum um siglingavernd segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega, farms og hafnaraðstöðu fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum og öðrum ólögmætum aðgerðum.“

Þetta er nú kjarni málsins sem hefur leiðst út í að það er farið að ræða um einkavæðinguna og almannaþjónustuna. Aðeins svona til að rifja upp þá man hv. þm. Jón Bjarnason eflaust eftir fyrirtæki sem hét Bifreiðaeftirlit ríkisins og var slík ógnarstofnun að menn fóru yfirleitt ekki þangað, sendu helst eiginkonur sínar, slík var þjónustan hjá þessum opinberu embættismönnum. Konurnar fóru meira að segja jafnvel í hárgreiðslu áður en þær fóru, það var kannski möguleiki á að fá skoðun á bílnum ef þær litu svona þokkalega út.

Annað fyrirtæki hét Viðtækjaverslun ríkisins. Það mátti enginn selja útvarp nema þessi ágæta verslun. Síðast en ekki síst einkarekstur Ríkisútvarpsins. Menn muna það eflaust þegar fyrrverandi þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti hér ár eftir frumvarp til breytinga á útvarpslögum þannig að aðrir en Ríkisútvarpið mættu reka útvarpsstöðvar. Það fékk engan hljómgrunn fyrr en opinberir starfsmenn fóru í verkfall og nokkrir ágætir opinberir embættismenn, einn þeirra núverandi flokksbróðir hv. þm. Jóns Bjarnasonar, gekk við annan mann upp í Ríkisútvarp og slökkti á þessu tæki sem var almenningsþjónustufyrirtæki. Þá var allt í lagi að slökkva á útsendingum Ríkisútvarpsins.

Það var líka mjög gott því að það leiddi til þess að Alþingi samþykkti eins og skot frumvarp hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar um að afnema einkarétt Ríkisútvarpsins á útvarpssendingum. Svona getur þetta nú farið um víðan völl og ekki er nú allt gott sem snýr að ríkisrekstri.