133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:33]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins eru orð hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem hann hefur látið falla um árangur okkar í baráttunni gegn fíkniefnavánni. Það eitt og sér er nægt tilefni til að kveðja sér hljóðs en tilefnið er ekki síst hvernig hann hefur nálgast málið með orðum sínum um Framsókn og fíkniefnamilljarðinn sem hann lét falla í ræðustól þingsins í síðustu viku, orð sem hann endurtók síðan á heimasíðu sinni í gær og Fréttablaðið kaus að taka upp eftir honum á forsíðu sinni. Ég átti ekki tök á að andmæla orðum hv. þingmanns þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að við skyldum ekki deila um hvernig framsóknarmilljarðurinn til forvarna í fíkniefnamálum hefði verið svikinn illa og hve mikið í fyrirspurnatíma í síðustu viku. Þar kaus hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson enn á ný að koma að og sá tortryggni um efndir núverandi ríkisstjórnar og framsóknarmanna um milljarð til baráttunnar gegn vímuefnum.

Þingmaðurinn reynir þrátt fyrir að hann viti betur að slá ryki í augu kjósenda með því að halda fram að Framsóknarflokkurinn hafi ekki staðið við kosningaloforð sitt frá 1999 um að verja milljarði í baráttuna gegn fíkniefnavánni. Ég segi að hann viti betur vegna þess að margoft hafa komið fram staðreyndir þessa máls.

Fyrir kosningarnar 2003 voru teknar saman upplýsingar um þróun fjárframlaga til þessara mála og þá kom fram að á því kjörtímabili voru framlögin til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins vegna baráttunnar gegn fíkniefnum aukin um 820 millj. kr. Framlögin til félagsmálaráðuneytisins vegna sömu mála á þeim tíma voru aukin um 540 millj. kr. og framlög til dómsmálaráðuneytisins vegna baráttunnar gegn fíkniefnum voru svo aukin um 350 millj. kr. Þá tel ég ekki með aukin útgjöld utanríkisráðuneytisins vegna aukins liðstyrks bæði lögreglunnar og tollgæslunnar þar. Samtals er þetta aukning upp á 1.710 millj. kr. eða 1,7 milljarða kr.

Frú forseti. Það er nú sem fyrr virkilega þörf á að setja baráttuna gegn vímuefnum á dagskrá. Það er í sjálfu sér tilefni til að óska hv. þingmanni til hamingju með sæti hans sem oddvita samfylkingarmanna í kjördæmi hans en þá um leið hlýtur maður að gera þá kröfu til þingmannsins að hann axli þá ábyrgð sem athöfnum og orðum oddvita þeirra í kjördæminu fylgir. Við höfum ekki efni á öðru en berjast saman í baráttunni gegn fíkniefnum og þessi málefnafátækt finnst mér ekki vera baráttunni til gagns.