133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:35]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp, en sök bítur sekan. Ef lengi er leitað og farið er yfir allt félagslega kerfið og heilbrigðiskerfið má að sjálfsögðu finna upphæðir sem teygja sig yfir milljarð (Gripið fram í: Jæja, jæja.) sem varið er til vímuvarna og vímuefnamála almennt, eins og segir í frægri handbók Framsóknarflokksins frá árinu 2003. En framsóknarmilljarðurinn í baráttunni gegn fíkniefnum var settur fram sem táknræn tala, táknræn tala um baráttuna gegn fíkniefnum, óskilgreint á sínum tíma og árangurinn blasir við. Núna, korteri fyrir kosningar, rýkur flokkurinn upp, kannski kunna þeir að skammast sín, og reynir að tína það til hvar sem því finnst staður í kerfinu að eitthvað heyri undir forvarnir og annað undir meðferðarúrræði. Tölurnar tala sínu máli. Framlög til meðferðarúrræða hafa t.d. ekki aukist um nema 139 milljónir á sex árum þrátt fyrir sprengingu í neyslu löglegra og ólöglegra fíkniefna. Fangelsin eru yfirfull af fólki sem ætti um margt að njóta annarrar þjónustu. En Framsóknarflokkurinn leyfir sér í ummælum í dag að telja sér það til tekna og milljarðsins fræga sem týndur er að sjálfsögðu og kom aldrei fram, sem hið sérstaka átak í baráttunni gegn fíkniefnamálum eins og hann átti að koma.

Nálgun hv. þingmanns eru að sjálfsögðu útúrsnúningar og settir fram til að drepa mikilvægu máli á dreif. Framsóknarmenn eru að víkja sér undan vandanum sem er vaxandi. Staðreyndirnar tala sínu máli. Milljarðurinn var táknræn tala um átak sem kom aldrei fram. Árangurinn blasir við. Hann er sorglegur samfélagsbrestur, stóraukin neysla á fíkniefnum sem Framsóknarflokkurinn ekki einu sinni getur með talnaleikjum sínum komið sér undan hvernig sem hann reynir. Það á ekki að slá þessum málum upp í talnaleiki eins og Framsóknarflokkurinn er að gera í dag. Þetta er vaxandi og gríðarlegur samfélagsvandi sem hefur aukist stórum skrefum á síðustu árum og verði ekkert að gert mun hann aukast enn.