133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:38]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki haft möguleika eða tækifæri til að láta reikna eða fara yfir þær tölur sem fram koma í Fréttablaðinu. Hitt er ljóst að Framsóknarflokkurinn lofaði milljarði í fíkniefnaforvarnir fyrir þarsíðustu kosningar.

Hægt er og það á að stuðla að forvörnum sem víðast frá öllum ráðuneytum og draga fram á öllum sviðum ábyrgð í þessu máli. En eftir stendur sú staðreynd að staðan í dag er mjög alvarleg. Á hverjum einasta degi berast okkur fréttir um að ástandið sé stöðugt að versna hjá börnum og unglingum. Neysla harðra efna er að verða meiri og alvarlegri og ljóst að meðferðarstofnanir sem eiga að sinna þeim sem hafa ánetjast fíkniefnum eru sveltar og okkur vantar fleiri úrræði. Þetta er staðreyndin. Sama hvar svo sem hægt er að leita eða finna þennan milljarð sem lofað var árið 1999 í mikilli kosningaherferð. Ég gef þá ekki mikið fyrir kosningaloforðin og ef þetta gamla loforð verður tekið upp aftur verður að fara í miklu markvissari aðgerðir og standa þá við þau framlög núna á fjárlögum og fjáraukalögum, til þeirra stofnana sem sinna þessum málum, Lýðheilsustöð, SÁÁ og öðrum þeim stofnunum sem sinna forvörnum í dag. Látum þá verkin tala núna í fjáraukalögunum og í fjárlögum fyrir 2007.