133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:40]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. Ég verð að segja eins og er að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem augljóslega hefur farið með rangt mál hvað eftir annað. Hann gerði það á heimasíðunni sinni, hann gerði það í Fréttablaðinu og hann gerir það í þingsalnum og hann meira að segja kemur upp og segir að það geti vel verið að hægt sé að finna þennan milljarð en hangir síðan á því að þetta hafi verið svikið. Það er alveg hreint og klárt mál og allir sem það skoða sjá að varið er meira en milljarði í þetta á umræddum árum. Það er algerlega óumdeilt. Ef einhver heldur einhverju öðru fram, þá er hann einfaldlega að skrökva. Svo einfalt er það.

Forvarnamál eru eilífðarmál. Við munum aldrei komast á þann tímapunkt að við séum búin að ná einhverjum endanlegum og algerum árangri. Þar kemur miklu fleira að en bara hið opinbera, ríki og sveitarfélög. Það eru fjölskyldur, frjáls félagasamtök, jafningjahópar og annað slíkt. Og það er algert forgangsmál hjá okkur þingmönnum og kjörnum fulltrúum að taka á þessum málum. Ef menn eru með betri hugmyndir og vilja fara aðrar leiðir eiga þeir að ræða það. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa lagt áherslu á frjáls félagasamtök í þessu. Ég hef mikla trú á frjálsum félagasamtökum hvort sem það eru SÁÁ, íþróttafélögin eða önnur slík. En við komumst ekkert áfram og ekkert er unnið með því að segja sama hlutinn aftur og aftur, sama ósanna hlutinn aftur og aftur og vonast til þess að einhver fari að trúa honum. Það eru hrein og klár ósannindi að hér hafi ekki verið staðið við gefin loforð hvað varðar fjárframlög til þessa en síðan er það okkar verkefni, eilífðarverkefni, að reyna að gera betur í þessum mikilvæga málaflokki.