133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:47]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er um margt sérkennilegt en um leið svolítið skemmtilegt að heyra að það hefur lifnað örlítið yfir Framsóknarflokknum enda er mér sagt að það sé nokkuð stutt í næstu alþingiskosningar.

Við þekkjum það að rétt fyrir alþingiskosningar lifnar yfirleitt yfir Framsóknarflokknum. Þá fara loforðin að svífa, loforð um hitt og þetta. Loforðið árið 1999 var milljarður til fíkniefnavarna til að eiga við fíkniefnavandann. Það var að sjálfsögðu táknræn upphæð sem þýddi það að Framsóknarflokkurinn ætlaði að tryggja að það næðist árangur í þessum málum. Hvar er árangurinn? Það væri nær að hv. þingmenn Framsóknarflokksins fjölluðu um árangurinn. Því miður hefur árangurinn ekki náðst og um það snýst málið. Við þurfum að ná árangri á þessum sviðum.

Það var eðlilegt að hv. þm. Valdimar Leó Friðriksson benti á það að í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er skorið niður í mjög mikilvægum málaflokkum sem allir telja mikilvægan í forvarnastarfi. Það er einmitt um það sem þetta snýst, að við náum árangri þar. En ég verð að segja, frú forseti, að það væri stundum betra að ekki væri staðið við öll kosningaloforð Framsóknarflokksins. Við höfum því miður á síðustu mánuðum þurft að þola að ýmis heimili hafa þurft að borga verðbólguskatt sem að stórum hluta til er hægt að bendla við kosningaloforð Framsóknarflokksins sem því miður var staðið við á vitlausum tíma. (Gripið fram í.) Því er nú verr og miður. Staðið við á vitlausum tíma, hæstv. ráðherra, og vertu ekki að láta gremju þína út í þingmanninn Guðjón Ólaf Jónsson bitna á mér þegar hann er að tala sérstaklega um Sunnlendinga og hvaða málflutningur á heima þar.

Við vitum alveg hvaða málflutningur á heima þar, og hann á líka heima hér. Það er nákvæmlega sami málflutningur sem á heima á Alþingi og á Suðurlandi þrátt fyrir að framsóknarmenn hafi ekki allir áttað sig á því. Kannski þurfum við að eyða einhverjum fjármunum til forvarna í þeim flokki.