133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:49]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum hér að ræða viðkvæman samfélagslegan vanda sem snertir flestar fjölskyldur eða a.m.k. mjög margar fjölskyldur á Íslandi. Það er mín skoðun og fleiri hér. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að við mættum eflaust verja meiri tíma í að ræða þennan vanda. En það er náttúrlega ekki sama hvernig það er gert. Ég vara við málflutningi sem stundum má verða vitni að hér, m.a. hjá Framsóknarflokknum þar sem hann gerir þetta að kosningamáli, kemur með einhverja patentlausn eins og felst í heilum milljarði til málaflokksins rétt fyrir kosningar.

Þessi málaflokkur á betra skilið en að vera gerður að kosningamáli og að menn rífist um krónur og aura. Þetta er vandi sem við þurfum að taka á með allt öðrum hætti.