133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

fjármagn til fíkniefnavarna.

[13:50]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það vill svo til að þessi málflutningur hv. þm. Björgvins Sigurðssonar gengur alls ekki upp á Suðurlandi. Þar hafa menn tamið sér það að segja satt og kennt ungum stjórnmálamönnum að segja satt. Ungir stjórnmálamenn og drengilegir menn sem lenda í þeirri ógæfu að bera ljúgvitni og fara með rangt mál eiga einfaldlega að biðjast afsökunar.

Nú liggur það fyrir staðfest í tölum að framlagið fór umfram það sem sagt var um 1,7 milljarða. Við vitum öll sjálf að í þessari miklu baráttu við lífið sjálft erum við varnarlaus. Við viljum ná tökum á þessum vanda í íslensku samfélagi. Við skulum ekki deila um það. Við skulum taka á því saman.

Ríkisstjórnin var t.d. að ákveða það að verja 120 millj. á fjárlögum nú til að gegnumlýsa gáma til að takast á við vandann. Við verðum auðvitað að standa saman í þessum málum. Við eigum að hvetja foreldrana, skólana, sveitarfélögin, ríkisvaldið, lögregluna, til að vinna af festu í þessum málum. Það hefur verið gert. Samt erum við alltaf á eftir þessari hersveit dauðans sem við þurfum að ná tökum á.

Þess vegna skulum við ekki gera lítið hvert úr öðru í málflutningi þar sem tölurnar tala sínu máli. Hv. þm. Björgvin Sigurðsson, það fóru 1,7 milljarðar umfram þetta af hálfu ríkisstjórnarinnar frá 1999 til 2003 til þessara mála. Það eitt dugði til einhvers en það dugði ekki til þess að við útrýmdum eiturlyfjum og átökum við þann harmleik sem því fylgir.

Þess vegna hvet ég til málefnalegrar umræðu. Við Framsóknarflokkinn þarf ekkert að tala í svikaumræðu og lygaumræðu. Hann hefur staðið fyrir sínum málflutningi í 12 ár í þessari ríkisstjórn. Við búum í framfaraþjóðfélagi sem stjórnarandstaðan öfundar okkur af. Hún hefði ekki náð þessum árangri sem ríkisstjórnin hefur náð, (Gripið fram í.) og Framsóknarflokkurinn (Forseti hringir.) á þar stóran þátt.