133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt á ræðu fyrirspyrjanda í þessari utandagskrárumræðu að fyrirspyrjandi, hv. þingmaður, hefur ekki verulegan áhuga á málsatvikum heldur fyrst og fremst á pólitískum uppslætti.

Iðnaðarráðuneytinu er kunnugt um að forsvarsmenn sveitarfélagsins Ölfuss og Atvinnuþróunarfélags Suðurlands hafa lengi haft hug á að staðsettur yrði orkufrekur iðnaður í sveitarfélaginu vegna nálægðar við orkulindir o.fl. Stóriðjunefnd Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga undir formennsku Kjartans Ólafssonar alþingismanns hefur til að mynda undanfarið ár unnið að markaðssetningu Þorlákshafnar með tilliti til stóriðju og m.a. gefið út kynningarbækling með upplýsingum á ensku til dreifingar. Áltæknigarður við Þorlákshöfn er bersýnilega ein þeirra hugmynda sem komið hefur til álita þarna og er greinilega tilefni þessarar utandagskrárumræðu.

Spurt er í fyrsta lagi: Hefur iðnaðarráðuneytið tekið þátt í undirbúningi þessara framkvæmda, og þá á hvaða hátt?

Ekkert samband hefur verið haft við ráðuneytið um það verkefni sem málshefjandi vitnar til. Ráðuneytið hefur hins vegar af þessu tilefni aflað eftirfarandi upplýsinga hjá bæjarstjóra sveitarfélagsins Ölfuss og hjá talsmanni Arctuss ehf. Upplýsingar þessara málsaðila eru á þessa leið:

Arctus ehf. hefur verið úthlutað um 150 hektara lóð vestan við Þorlákshöfn til 18 mánaða með skilyrðum meðan verið er að kanna grundvöll fyrir byggingu og starfrækslu áltæknigarðs. Arctus ehf. áformar að á lóðinni verði frumvinnsla á áli, endurbræðsla, vinnsla á vörum úr áli, hönnun og framleiðsla á vörum tengdum álvinnslu, endurvinnsla á kerbrotum, nám á háskólastigi tengt málmtækni o.fl. Samstarfsaðilar fyrirtækisins eru fyrirtæki í Asíu og Bandaríkjunum. Markaður fyrir afurðir verksmiðjunnar yrði væntanlega í Asíu og Evrópu. Síðar hafa þeir í ráði að þarna yrði byggt álver á lóðinni með u.þ.b. 60 þús. tonna framleiðslugetu sem framleiða skyldi þá hráál til úrvinnslunnar. Áætlað er að áltæknigarðurinn verði byggður upp í áföngum en ekki er talið nauðsynlegt að stækka höfnina í Þorlákshöfn vegna fyrsta áfanga. Fljótlega verði hafist handa, samkvæmt þessum áætlunum, með mat á umhverfisáhrifum og þess vænst að framkvæmdum við fyrsta áfanga ljúki 2012 svo fremi að nægileg raforka fáist afhent á þeim tíma.

Næsta spurning er: Hafa orkufyrirtækin upplýst ráðuneytið um það hvar stendur til að afla 300 megavatta orku í þessu skyni?

Engin orkufyrirtæki hafa haft samband við ráðuneytið vegna þessa máls. Í tilefni af spurningunni aflaði ráðuneytið upplýsinga hjá Orkuveitu Reykjavíkur og hjá Landsvirkjun. Orkuveitan upplýsti að forsvarsmenn verkefnisins hefðu átt fund með Orkuveitunni til að kanna möguleika á orkuafhendingu. Af hálfu Orkuveitunnar komu fram þau svör að engin fyrirheit eða vísbendingar hefðu verið gefin enda enga raforku unnt að láta af hendi til viðbótar, m.a. vegna skuldbindinga um raforkuöflun til annarra verkefna. Þá væri frekari orkuöflun háð leyfum til rannsókna og virkjunar. Landsvirkjun upplýsti aðspurð að engar viðræður hefðu átt sér stað um hugsanlega orkuöflun vegna þessa verkefnis.

Enn er spurt um erlenda fjárfesta, hvort þeir hafi haft samband.

Engir fjárfestar hafa leitað til ráðuneytisins vegna þessara áforma, hvorki það erlenda fyrirtæki sem hv. fyrirspyrjandi nefnir né aðrir.

Enn er spurt: Hvar í röð nýframkvæmda í áliðnaði telur ráðherrann æskilegt að þetta nýja álver lendi o.s.frv.?

Þessari spurningu er ekki unnt að svara á þessari stundu og það er ekki einhlítt að mat eins aðila ráði öllu um slíkar ákvarðanir í atvinnumálum. Talsmaður Arctuss leggur áherslu á að málið sé á frumstigi, aðeins fyrstu drög að viðskiptahugmynd.

Eins og áður segir á iðnaðarráðuneytið enga aðild að þessu verkefni, það er alfarið á vegum annarra aðila og það er í samræmi við þá skipan þessara mála sem nú ræður. Þetta ferli sýnir með öðru að um virka forsjá ráðuneytisins er ekki að ræða og það er í samræmi við almenna skipan þessara mála á síðustu árum eftir að tímabili virkrar stóriðjustefnu íslenskra stjórnvalda lauk (Forseti hringir.) og frumkvæðið færðist til annarra málsaðila.