133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:15]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi umræða er hafin í tilefni af því að Framsóknarflokkurinn heldur því fram og hæstv. iðnaðarráðherra þar fremstur í flokki að engin stóriðjustefna sé við lýði. Það skyldi þó ekki vera að ríkisstjórnin væri föst í netinu sem hún sjálf lagði út árið 1995 þegar hún meðvitað markaðssetti Ísland sem vænlegan og fýsilegan orkunýtingarkost fyrir stóriðjufyrirtæki á borð við þau sem við höfum boðið heim upp á síðkastið. Það stendur greinilega enn, það heimboð, þannig að hæstv. ráðherra situr í því neti sem þessi ríkisstjórn hefur lagt út og það verður ekki komist úr því öðruvísi en með róttækum aðgerðum.

Ein af þeim aðgerðum er sú sem auðlindanefndin sem nýverið skilaði af sér skýrslu leggur til, að landinu verði skipt upp í orkunýtingarsvæði og verndarsvæði. Hæstv. ráðherra sagði um þessa skýrslu og hugmyndir þær sem í nefndarálitinu voru settar fram að við hefðum náð merkilegum áfanga í mikilvægum málaflokki og að í tillögum nefndarinnar væri fólginn farvegur til þjóðarsáttar. En það er ekki að heyra á hæstv. ráðherra eins og hann talar nú. Og nú verðum við að fá skýrt frá ráðherranum hvað hann meinar með orðum sínum. Hann getur ekki haldið áfram að tala eins og að áform um orkufrekan iðnað lifi í einhverju tómarúmi, óháð nýtingu náttúruauðlindanna. Náttúruauðlindirnar sem um ræðir eru ósnortin víðerni, ár og lækir, fjöll og dalir, fuglasöngur og öræfakyrrð. Hvernig ætlar þessi hæstv. ráðherra að tala á trúverðugan hátt til þjóðarinnar um það að eitthvað verði eftir til að vernda ef hann er hlynntur því að sveitarfélögin haldi áfram þessum nýtingaráformum sem hv. málshefjandi lýsti svo vel í ræðu sinni?

Þessi hæstv. ráðherra er ótrúverðugur meðan hann talar á þessum nótum.