133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:19]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hann er nokkuð grátlegur, flótti Framsóknarflokksins frá því feigðarflani sem stóriðjupólitíkin hefur reynst flokknum og er núna að þurrka hann út. (Gripið fram í.) Nú er það svo svart að það á að koma kaleiknum til sveitarfélaganna. Hér koma þeir hver á fætur öðrum, kveina yfir því að hv. þingmenn Vinstri grænna skuli voga sér að ræða stóriðjupólitík á þingi. Öðruvísi mér áður brá. Að sjálfsögðu er sjálfsagt mál að ræða í þinginu hvort til standi að reisa fleiri orkufrek álver eða ekki. (Gripið fram í: … Samfylkingarinnar?) Hún er mjög skýr og hefur verið rakin hér í dag. (Gripið fram í: Í hvaða kjördæmi?) Í öllum kjördæmum landsins, að sjálfsögðu. En málið er það að nefnd á vegum Samtaka sveitarfélaga á Suðurlandi lagði fram skýrslu í fyrra þar sem fjöldamargar hugmyndir komu fram, þar sem leitað var atvinnulausna til framtíðar. Ein margra þeirra hugmynda er sú sem hér er rædd í þinginu í dag, eða einhvers konar útgáfa af henni, og það er ákaflega sérkennilegt að þingmenn Framsóknarflokksins skuli rjúka upp til handa og fóta og taka því með þeim harmkvælum sem þeir hafa gert hér að málið sé rætt út frá mörgum ólíkum hliðum.

Það er sjálfsagt að kanna þá kosti sem fyrir liggja, eins og gert var í skýrslu SASS, og það er sjálfsagt að ræða í þinginu þá uppbyggingar- og atvinnulífskosti sem þar koma fyrir, eins og svo mörg önnur stórpólitísk atvinnutengd mál. Það er algerlega sjálfsagt mál og umræðan er þakkarverð og sjálfsögð, enda hefur strax komið fram að Framsóknarflokkurinn er á harðahlaupum frá því að kannast við málið og vísar því öllu heim í hérað, burt séð frá stöðu mengunarkvóta og annarra mjög stýrandi þátta sem að sjálfsögðu stjórna því hvort hér verði reist fleiri iðjuver eða ekki.