133. löggjafarþing — 26. fundur,  14. nóv. 2006.

álversáform í Þorlákshöfn.

[14:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það fór fyrir mér í þessari umræðu eins og greinilega fleiri hv. þingmönnum að ég velti fyrir mér hvaða tilgangi hún þjónaði. Fyrstu frumdrög, athugun á því hvort hugsanlega væri hægt að byggja úrvinnsluálver, lóðarvilyrði til 18 mánaða. Það er búið að nefna við orkufyrirtækin (Gripið fram í.) að það þurfi kannski orku einhvern tímann. Hv. málshefjandi fór yfir þá kosti sem sveitarstjórnarmenn á Suðurlandi höfðu nefnt áður en auðlindanefndin skilaði af sér þannig að þeim fyrirgefst að hafa ekki vitað hvað auðlindanefndin mundi segja. (Gripið fram í.)

En þegar leið á ræðu hv. síðasta ræðumanns áttaði ég mig á tilgangi umræðunnar. Tilgangur umræðunnar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir fyrir Vinstri græna hóf var sá að leiða það fram að Samfylkingin er með tvær stefnur í orkumálum. Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir var á móti og hv. þm. Björgvin Sigurðsson var með. Ég tek undir með hv. þm. Björgvini Sigurðssyni og tel sjálfsagt að kanna þessa kosti. Mér finnst gott að það skuli vera undir forustu sveitarfélaganna á Suðurlandi og þó að ég vilji hæstv. iðnaðarráðherra allt hið besta finnst mér alveg óþarfi að vera að hengja á hann þann kross að hann hafi eitthvað haft með þetta að gera, a.m.k. í upphafi málsins. (Gripið fram í: Kross?) Heiðurskross, hv. þingmaður.